Uppistandssýningin „Big, Small Town Kid“ frá grínistanum Arnóri Daða er komin á streymisveitur VOD Sjónvarp Símans og Vodafone.
Sýningin vann til þrennra verðlauna á Reykjavík Fringe hátíðinni árið 2020 og vakti athygli Stand Up Records, sem er stærsta sjálfstæða grín-útgáfufyrirtæki í Bandaríkjunum. Fyrirtækið er þekkt fyrir að gefa út efni upprennilegra grínista sem og eldri reynslubolta eins og Hannibal Buress, Mariu Bamford, Joan Rivers, Patton Oswalt og David Cross.
Big, Small Town Kid fjallar um líf Arnórs Daða er hann ólst upp á Hauganesi á Norðurlandi. Hann lýsir því á fyndinn og skemmtilegan hátt hve erfitt það er að vera með stóra drauma um að vera grínisti í 150 manna bæ. Hann talar einnig um hvernig lífið á Hauganesi er í raun og veru, fíkn hans í að horfa á Real Housewives og uppátækjum bæjargæsarinnar.
Til að fagna áfanganum ætla Arnór og fimm aðrir grínistar að troða upp á Húrra (Tryggvagötu 22, 101 RVK) 12. Ágúst næstkomandi með sýninguna „Smokey Bay Comedy“.
Stiklu úr sýningu Arnórs má sjá hér að neðan en hægt er að kaupa sýninguna í heild sinni á vef Stand Up Records.
UMMÆLI