Framsókn

Goblin safnar áheitum fyrir Skapandi Spilamiðstöð á Akureyri

Goblin safnar áheitum fyrir Skapandi Spilamiðstöð á Akureyri

Smávöruverslunin Goblin sem stendur við Brekkugötu 1b á Akureyri safnar nú áheitum fyrir skapandi spilamiðstöð á Akureyri.

Í spilasal Goblin er aðaláherslan á félagaslega- og menningarlega þætti borðspila. Boðið er upp á aðstöðu, námskeið og viðburði fyrir öðruvísi borðspil, hlutverkaspil, safnspil, módel málningu og ýmislegt fleira.

„Kjarninn í starfseminni okkar er áherslan á skjálausa samveru. Okkur finnst afar mikilvægt að börn og fullorðnir stundi áhugamál sem styrkja félagsleg tengsl og efla skapandi hugsun, í stað þess að týna sér í skjátækjum. Það er eitt af því sem við erum hvað stoltust af við spilasalinn okkar. Hjá okkur er tækifæri til þess að gleyma sér við skjálausa skemmtun. Það er eitthvað sem okkur er mjög hugleikið. Við teljum spilasalinn geta þjónað því mikilvæga hlutverki að vera friðsælt afdrep í hraða nútímans,“ segir Ásta Hrönn Harðardóttir, eigandi Goblin.

„Í raun má segja að hugmyndin af verkefninu hafi kviknað fyrir um 20 árum, þegar ég fór með bróður mínum í fyrsta skipti inn í Nexus í Reykjavík, sem þá var staðsett á Hverfisgötunni. Þarna uppgötvaði ég alveg nýjan heim. Mjög öðruvísi, en heillandi þrátt fyrir að ég skildi nú ekki mikið í mörgu því sem þarna var til sölu. Okkur systkinunum er spilamennska í blóði borin, alin upp við skák, félagsvist og spilað ófá borðspilin saman svo ég tengdi þó við margt. Systkini mín voru þarna búin að kynnast spilum á borð við Warhammer, Magic the Gathering og D&D og ég að taka námskeið í nýsköpun. Mér fannst þetta sérstaklega áhugverð hugmyndafræði í kringum svona öðruvísi spil sem eru mjög skapandi, eins og hlutverkaspil og fór að velta þessum bransa fyrir mér. Við byrjuðum svo að leika okkur með hugmyndir um að opna svona búð á Akureyri, en svo lagðist sú hugmynd í dvala um nokkurt skeið.“

„Svo kom að þeim tímapunkti löngu síðar að ég vildi gera eitthvað nýtt og stofna mitt eigið fyrirtæki. Þá vaknaði þessi hugmynd hjá mér aftur, því bæði börnin mín og systkinabörn komin með brennandi áhuga á þessum heimi. Upphaflega stóð til að reka „bara litla vefverslun“ með smá lageraðstöðu á Akureyri. En eitt leiddi af öðru og oft þegar við Steini fáum hugmyndir saman, verða þær oft aðeins stærri en við ætluðum og gerast oft mjög hratt.“

„Aðalástæða þess að við komumst vel af stað með þetta verkefni er sú við kynntumst í byrjun svo frábærum og öflugum hópi spilara. Þar fengum við svo rosalega jákvæðar og góðar móttökur og ómetanlegan stuðning í því sem við vorum að gera að boltinn fór að rúlla. Það sýndi okkur hversu jákvætt og valdeflandi samfélag er í kringum þessi spil. Við áttuðum okkur betur á mikilvægi þess að skapa þarna ákveðna miðju í bænum til að gera það auðveldara að hittast og tengjast öðrum með sömu áhugamál. Því tók áhuginn á að reka „Spilamiðstöð“ yfir og það varð aðaláherslan hjá okkur. Þessi frábæri hópur fólks fer svo bara stækkandi.“

Ásta segir að spilasalurinn sé hjarta rekstrarins. Allt hafi byrjað sem lítil hugmynd en nú hafi hún undið upp á sig og ljóst sé að þörfin fyrir aðstöðu sem þessa sé langþráð á svæðinu. Söfnunin á Karolina Fund er þeirra leið til þess að mæta ákalli fyrir uppbyggingu á spilasal.

„Þemað er „Skapandi Spilamiðstöð“. Það felur í sér að við leggjum áherslu á spil sem efla félagsleg tengsl og sköpunarkraft. Til þess að skapa góða og þægilega stemningu, þurfum við hlýlegt og notalegt rými. Aðstaðan er opin spilaáhugafólki til afnota á opnunartíma verslunarinnar og eru þar ýmsir skemmtilegir viðburðir flesta daga sem vert er að kynna sér. Til þess að geta haft aðstöðuna opna öllum án endurgjalds leitum við eftir ykkar aðstoð. Margt smátt, gerir eitt stórt.“

Smelltu á linkinn hér fyrir neðan til þess að fara inn á söfnunarsíðuna. https://www.karolinafund.com/project/view/3944

Hægt er að styrkja um hvaða upphæð sem er, stórt eða smátt. Áheitin eru einungis innheimt ef markmið fjármögnunar næst. Í lok tímabilsins er svo gjaldfært af kreditkortum þeirra sem taka þátt, ef fjármögnun næst ekki fellur greiðslan niður.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó