NTC

Vikan í Hrísey – Verkefninu Áfram Hrísey að ljúka og ferðasumarið hafið

Vikan í Hrísey – Verkefninu Áfram Hrísey að ljúka og ferðasumarið hafið

Vikan í Hrísey er vikulegur pistill hér á Kaffinu þar sem Ásrún Ýr Gestsdóttir færir lesendum okkar fregnir af því sem gerst hefur í Hrísey undanfarna vikuna. Pistlarnir eru einnig birtir á heimasíðu Hríseyjar undir nafninu „Föstudagsfréttir.“ Pistillinn hefst við næstu greinaskil og er því allt hér á eftir skrifað af Ásrúnu:

Föstudagur hittir svona akkúrat á síðasta dag maímánaðar í dag.

Vikan hefur verið góð hérna í Hrísey og mikið um að vera. Verið er að fara í framkvæmdir í Hríseyjarskóla svo starfsfólk og nemendur hafa verið að pakka, flytja og færa til dót, bækur, húsbúnað og allt sitt hafurtask í geymslur og á milli húsa. Leikskóladeildin færði sig yfir í Hlein tímabundið á framkvæmdartíma og tókst þeim að gera fjarvinnusetrið ansi notalegt og skemmtilegt fyrir börnin. Skólaslit eru svo í dag og munu þrjú ungmenni útskrifast úr Hríseyjarskóla og tvær ungar dömur útskrifast úr leikskóladeild. Tveir elstu bekkir skólans komu heim úr Danmerkurferð sinni á sunnudagskvöldinu svo það er óhætt að segja að þetta hafi verð anasamir og skemmtilegir dagar hjá þeim í lok skólaársins. 

Sjómannadagsdagskráin hefur verið birt og ákveðið var að halda daginn hátíðlegan á sjálfan sjómannadaginn, sunnudaginn 2.júní. Við hvetjum bátaeigendur til þess að taka þátt í siglingu og ykkur öll til þess að taka þátt í dagskránni. Við fullorðna fólkið megum ekki týna okkar innra barnið og því algjört lykilatriði að taka þátt í leikjum með krökkunum! Sjálfboðaliðar létu ekki standa á sér og þar sem fréttaritari hefur bakstursskjalið í höndunum get ég lofað frábæru sjómannadagskaffi! 

Það eru fréttir af veitnigabransanum í Hrísey en Brekka bistró opnar laugardaginn 1.júní og Verbúðin 66 er eykur opnunartíma núna um helgina og sumaropnun fyrir júní hefst 4.júní. Við finnum öll fyrir því að ferðasumarið er hafið en gistirými eru vel bókuð í eyjunni og tjaldsvæðið opnaði fyrir áætlun fyrr í maí. Við sem þekkjum hér til skiljum vel að fólk vilji heimsækja Hrísey! 

Aðalfundur hverfisráðs Hríseyjar var haldinn miðvikudaginn 29.maí og kosið var í nýtt ráð. Narfi Freyr Narfason gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu og við þökkum honum fyrir sín störf. Ingólfur Sigfússon og Júlía Mist Almarsdóttir gáfu áfram kost á sér og með þeim var kosinn inn Kristinn Frímann Árnason. Við óskum nýskipuðu hverfisráði til hamingju og velfarnaðar í sínum störfum næsta árið. Eftir aðalfundinn var íbúafundur þar sem skipt var á nokkur borð og hvert borð fór yfir hvað þeim fannst gott við Hrísey og svo hvað mætti bæta. Voru svörin mjög hljómlík frá öllum hópum og erum við heilt yfir ánægð með eyjuna okkar, náttúruna og samfélagið. Enda erum það við sjálf sem sköpum samfélagið og undir okkur sjálfum komið að það þrífist eins vel og það gerir. 

Laugardaginn 1.júní gengur þjóðin til forsetakosninga og í Hrísey verður kosið í Hríseyjarskóla. Opnar kjörstaður klukkan 09:00 og bent er á að í Hrísey verður kjörstaður að lágmarki opinn til kl. 14:00 nema allir á kjörskrá hafi kosið fyrir þann tíma.

Hreinsunardagurinn var haldinn laugardaginn 25.maí og gekk vel. Hverfiráð grillaði að venju og eins og alltaf hefur verið voru eyjaskeggjar dugleg bæð að týna og borða. Þau sem eyjuna heimsækja tala oft um hversu snyrtilegt sé hérna og fallegt. Við getum verið stolt af umhverfinu okkar, það er alveg víst.

Auglýst hefur verið tillaga að breytingu á skipulagi við Austurveg og má lesa nánar um það hér.

Aðalfundur Markaðsstofu Norðurlands var haldinn í Hrísey fimmtudaginn 30.maí og var gaman að fá allt þetta fólk úr ferðamannaiðnaðnum til okkar í heimsókn og gefa þeim smjörþef af því sem Hrísey hefur upp á að bjóða.

Veðrið um helgina verður ágætt. Hiti um 10 gráður bæði laugardag og sunnudag, skýjað, stundum smá sól og smá séns á regni á sunnudeginum. Við látum veðrið ekki stoppa okkur í að hafa gaman!

Svona aðeins í lokin frá mér, Ásrúnu.

Það eru maílok og fyrir mig eru tímamót. Verkefninu Áfram Hrísey er að ljúka og þar með starfi mínu sem verkefnastýra yfir því. Verkefnastjórnin hefur skilað inn lokaskýrslu til SSNE og Byggðastofnunar og set ég hér inn fréttatextan sem fylgir skýrslunni:

„Byggðaþróunarverkefninu Áfram Hrísey var úthlutað styrk úr byggðaáætlun með stuðningi SSNE (Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra). Þessi styrkur er úr sjóði sem er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 (aðgerð C.1).

Ásrún Ýr Gestsdóttir var ráðin verkefnisstýra Áfram Hrísey og hefur hún meðal annars byggt upp nýja samfélagsmiðla fyrir Hrísey og samtengt þá við hrisey.is vefinn þar sem má finna fréttir, viðburði og allar helstu upplýsingar um lífið í Hrísey.

Í upphafi var unnin stefnumótun fyrir Hrísey sem ákjósanlegan búsetukost og gerð greining á stöðu á húsnæðis- og, atvinnumálum. Í framhaldi vvar unnið við markaðssetningu á Hrísey sem vænlegum búsetukosti með áherslu á þá góðu grunnþjónustu sem er til staðar í Hrísey. Var heimasíða og samfélagsmiðlar nýtt til þess að segja frá samfélaginu í Hrísey og hvað eyjan hefur upp á að bjóða fyrir íbúa og gesti. Með tilkomu verkefnisins hefur hróður Hríseyjar borist víðar en áður og opnað augu margra á Hrísey sem góðum búsetuvalkosti til framtíðar.“

Það hefur verið sannur heiður að fá að vinna fyrir Hrísey, framtíð hennar og þróun. Ég hef alla tíð verið talskona Hríseyjar og löngu áður en tækfærið bauðst að flytja heim var fólk farið að skjóta á mig ef ég hafði ekki minnst á Hrísey í samtali. Það var því aldrei hik á mér að taka við þessu verkefni og vinna að því að heilindum, með ástríðu og öllum þeim krafti sem ég bý yfir, fyrir samfélagið í heild. Föstudagsfréttir hafa verið partur af verkefninu og að skrifa þær er alltaf jafn skemmtilegt. Líka þegar það er í rauninni ekkert að frétta! Þó að Áfram Hrísey sé að ljúka þá er vinnunni ekki lokið og munu samfélagsmiðlar enn vera virkir og föstudagsfréttir skipta um nafn. Allur grunnur sem býr í Áfram Hrísey rennur inn í Þróunarfélag Hríseyjar og nýtist áfram til góðra verka og uppbyggingu. Ég mun sinna miðlunum áfram í sjálfboðavinnu en það þýðir þá að virkni verður minni og fréttirnar ekki jafn reglulegar. Því núna ætla ég í alvöru sumarfrí í júní!

Ég vildi nýta mér þennan vettvang til þess að þakka ykkur öllum fyrir samstarfið, uppbyggilega gagnrýni, ábendingar, stuðninginn, peppið og samfylgdina á öllum okkar miðlum. 

Takk fyrir mig.

Ásrún Ýr. 

Sambíó

UMMÆLI