Akureyrarbær og Vegagerðin eiga nú í viðræðum um breytingar á gjaldskrá Hríseyjarferjunnar. Þetta kemur í kjölfar mikillar andstöðu heimamanna í garð fyrirhugaðrar hækkunar. Að öllu óbreyttu eiga breytingar á gjaldskránni að taka gildi 1. maí næstkomandi. Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.
Líkt og Kaffið hefur áður greint frá var mest andstaða meðal eyjaskeggja í garð rúmlega 117% verðhækkunar á svokölluðum upphringiferðum. Einnig var gagnrýnt að ekki stæði lengur til boða afsláttur af upphringiferðum fyrir aldraða, öryrkja og börn. Líkt og Ásrún Ýr Gestsdóttir, varabæjarfulltrúi Akureryrarbæjar, gerði grein fyrir myndi það kosta 5 manna fjölskyldu rúmar 18 þúsund krónur að sigla með síðustu ferð ef fyrirhugaðar breytingar fá fram að ganga.
Akureyrarbær og Vegagerðin í viðræðum
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri segir það í samtali við RÚV vera mikil vonbrigði þegar svona miklar verðhækkanir eiga sér stað. Akureyrarbær sé búinn að hafa samband við Vegagerðina og óska eftir að þessar fyrirætlanir verði endurskoðaðar. Jafnframt segist hún skilja óánægju Hríseyinga.
Hilmar Stefánsson, forstöðumaður almenningssamgangna hjá Vegagerðinni, bendir á það í samtali við RÚV að breytingar á almennu fargjaldi séu í raun óverulegar og vísar hann þá í að ekki hafi verið hækkað verð í ferjuna síðan 2021, en á þeim tíma hafi orðið hækkun vísitölu sem nemur um 31%.
Hilmar bætir þó við að breytingar á upphringiferðum ferjunnar séu til skoðunar og greint verði frá því fyrir mánaðarmót hvort og þá hvernig þetta yrði útfært. Hann segir eina útfærslu sem sé til skoðunar að aðeins eitt upphringigjald verði greitt fyrir hverja upphringiferð, en aðrir farþegar greiði svo hefðbundin gjöld.
Þessi grein er skrifuð af Guðmari Gísla Þrastarsyni, nemanda í Verkmenntaskólanum á Akureyri