A! Gjörningahátíð

Umhverfismál og einnota vörur í brennidepli

Frá fundinum í gær. Hólmar Svansson í pontu. Mynd: akureyri.is.

Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrabæjar og Vistorka stóðu fyrir fundi um einnota vörur í Hofi í gær, þriðjudaginn 24. apríl. Á fundinn var m.a. boðið kjörnum fulltrúum, starfsmönnum bæjarins sem tengjast málaflokknum, matvælaframleiðendum, sorphirðufyrirtækjum og verslunum. Góð mæting var á fundinn eða hátt í 40 manns eins og kemur fram á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundurinn hófst með erindi frá Dagbjörtu Pálsdóttur stjórnarformanni Vistorku. Hún fór yfir aðdraganda og vinnu við gerð Umhverfis- og samgöngustefnu Akureyrar en stefnan var samþykkt í bæjarstjórn í desember 2016. Ingibjörg Isaksen formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs fór síðan yfir framkvæmd stefnunnar og stöðu málaflokksins í dag. Að lokum flutti Hólmar Svansson framkvæmdastjóri Háskólans á Akureyri mjög áhugavert erindi um málið út frá sjónarhóli neytenda. Fundarstjóri var Þórgnýr Dýrfjörð deildarstjóri Akureyrarstofu.

Mjög góðar umræður voru á fundinum, þar sem ólík sjónarmið voru rædd og viðraðar ýmsar mögulegar framtíðarlausnir við vandamálum eins og hvernig hægt sé að draga úr urðun á pakkaðri matvöru.

Þessi fundur er hugsaður sem upphafið að samstilltu átaki um það hvernig við getum dregið úr sóun og umhverfisspori samfélagsins og aukið endurnýtingu og endurvinnslu. Það er stefna skipuleggjenda að halda í haust opinn fund þar sem kallað verður eftir sjónarmiðum íbúa og annarra sem nýta sér endurvinnslu- og sorphirðukerfi samfélagsins.

Þeim sem vilja frekari upplýsingar um sorphirðu og flokkun er bent á að kíkja á efni sem má á eftirfarandi síðum:

http://www.vistorka.is/is/urgangsmal

https://www.akureyri.is/is/thjonusta/samgongur-og-umhverfi/gamasvaedi-og-sorphirda/urgangsmal-spurt-og-svarad

Umhverfis- og samgöngustefna Akureyrar.

VG

UMMÆLI