Nemendur í 1. bekk í náttúrulæsi í MA taka þátt í verkefninu Umhverfisfréttafólk sem Landvernd stendur fyrir ár hvert. Nemendur á aldrinum 12-25 ára taka þátt. Um verkefnið segir á heimasíðu samtakanna:
,,Ungt umhverfisfréttafólk (Young reporters for the Environment) skapar vettvang fyrir ungt fólk til að kynna sér umhverfismál með gagnrýnum hætti og miðla upplýsingum til almennings á fjölbreyttan og skapandi hátt. Verkefnið er rekið í 44 löndum, víðsvegar um heiminn.“
Á vefsíðu MA segir:
„Þetta árið komust tvö verkefni frá MA í úrslit keppninnar. Þeir Gísli Erik Jónsson, Daniel Ómar Romero og Róman Þórarinsson sem sömdu nýjan texta, Rusl út um allt, við lagið ,,Í grænum sjó“ og tóku upp myndband. Hanna Lilja Arnarsdóttir, Steinunn Sóllilja Dagsdóttir og Heiða María Arnarsdóttir skrifuðu og myndskreyttu tímaritið Skref fyrir skref. Verkefni stúlknanna varð í 2. sæti í flokki framhaldsskóla og hljóta þær verðlaun frá Landvernd. Lag og myndband drengjanna féll í góðan jarðveg og var spilað við verðlaunaafhendinguna,sem haldin var fyrir sunnan fimmtudaginn 10. apríl.“