Toto og Big Country í Saurbæjarhreppi

Rokkhljómsveitin Guns N´Roses er á leiðinni til landsins. Fréttir þess efnis bárust á dögunum. Ef rétt reynist mun hljómsveitin spila á Laugardalsvelli þann 24. júlí nk. Fregnir herma að tónleikarnir verði hinir stærstu sem haldnir hafa verið á íslenskri grundu.

Í ár eru 30 ár liðin frá fyrirhuguðum stórtónleikum heimsþekktra tónlistarmanna hér á klakanum. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að ýmislegt er keimlíkt með þessum tveimur málum. Árið 1988 náðust samningar við Reykjavíkurborg og aðila í London til að tryggja áður óséða og óheyrða upplifun tónleikagesta og gera þannig tónleikana að einhverjum þeim stærstu í Íslandssögunni.

Nokkrir ungir ofurhugar á Akureyri tóku sig saman og ákváðu að standa fyrir útihátíð um verslunarmannahelgina árið 1988. Ein með öllu ´88 á Melgerðismelum í Eyjafirði. Fréttaflutningur af hátíðinni byrjaði heldur betur með látum. Lesendur Dags vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þann 5. maí þegar við þeim blasti frétt um að „nær öruggt“ væri að ameríska stórhljómsveitin Toto myndi spila á Melgerðismelum. Aðeins átti eftir að skrifa undir samning við Toto þegar bárust fréttir frá Ameríku um að hljómsveitin kæmi ekki til Eyjafjarðar.

Þann 20. júní birti DV frétt á baksíðu blaðsins sem mögulega gladdi vonsvikna Toto-aðdáendur. Blaðið taldi sig hafa öruggar heimildir fyrir því að búið væri að semja við skosku stórhljómsveitina Big Country um að koma og spila í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði. Samningar náðust milli hljómsveitarinnar og aðstandenda útihátíðarinnar um að pantaður yrði tækjabúnaður að utan til að gera tónleikana sem stærsta. Þá var samið við Reykjavíkurborg um leigu á hljómflutningskerfi borgarinnar, samtals um 25.000 watt að styrkleika. Svo virtist sem einungis formsatriði væri að staðfesta komu skosku sveitarinnar.

Sennilega hafa einhverjir orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar þeir sátu með kaffibollann sinn og lásu Dag föstudaginn 15. júlí. „Big Country kemur ekki“ var fyrirsögn fréttatilkyningar. Skýringin var óhóflegar kröfur hljómsveitarinnar þegar kom að tækjabúnaði, kröfur sem höfðu margfaldast á milli mánaða. Þær voru nú orðnar óraunhæfar svo vægt sé til orða tekið en stóðu óhaggaðar af hálfu forsvarsmanna hljómsveitarinnar. Samningum var því rift.

Nú vonum við bara að kaffiþyrstir lesendur dagblaðanna og aðdáendur Guns N´Roses verði ekki fyrir vonbrigðum í sumar.

Þrátt fyrir skort á heimsfrægum, erlendum hljómsveitum skemmtu nokkur þúsund ungmenni sér vel á Melgerðismelum, helgina 29. – 31. júlí. Ýmsar hljómsveitir, sumar „heimsþekktar“ á Íslandi tróðu upp auk þess sem ein erlend hljómsveit skemmti hátíðargestum. Hvaða hljómsveit hélt uppi heiðri erlendu hljómsveitanna á Melgerðismelum sumarið 1988? Nánar um málið á heimasíðu Grenndargralsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó