Unga tónlistarkonan Sigrún María sem er nýbúin að gefa út sitt fyrsta lag, (Dancing on) The Edge of Reality, stígur á svið með hljómsveitinni sinni Cohortis miðvikudaginn 30. apríl þar sem þau munu flytja ný og frumsamin lög ásamt nokkrum tökulögum. Hljómsveitin samanstendur af Sigrúnu Maríu sem syngur og spilar á gítar, Heklu Sólveigu á hljómborði, Helgu Björg á bassa, Valdimar á gítar og Elíasi á trommum. Tónleikarnir verða haldnir í Hlöðunni, Litla-Garði á Akureyri, og byrja klukkan 20:00 og kostar 3000 krónur inn.
Hljómsveitin hefur komið fram á ýmsum viðburðum yfir síðastliðnu þrjú árin eins og til dæmis tónlistarkeppni Menntaskólans á Akureyri, Viðarstauk, þar sem þau lentu í þriðja sæti. Þau gætu ekki verið spenntari yfir því að halda loksins sína eigin tónleika þar sem þau geta flutt frumsömdu lögin fyrir framan fullan sal af fólki.