Háskólinn og SSNE eru samstarfsaðilar Hraðsins, miðstöð nýsköpunar á Húsavík, sem stendur fyrir viðburðinum KRUBBUR, sem átti sér stað í lok mars á Húsavík. Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor, flutti ávarp við upphaf hraðhlaupsins. Einnig starfaði Svava Björk, verkefnisstjóri nýsköpunar hjá HA, að skipulagi í hraðhlaupinu, þjálfaði teymi og sat í dómnefnd.
Á sama tíma og KRUBBUR átti sér stað skrifuðu Áslaug, Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga og Stefán Pétur Sólveigarson, verkefnastjóri Hraðsins undir samstarfssamning. Hraðið er rekið sem hluti af Þekkingarnetinu og eiga þau sitt helsta aðsetur á STÉTTIN sem er samfélag stofnana, fyrirtækja og einstaklinga á Húsavík sem starfa við nýsköpun, rannsóknir, þróun og þekkingarstarfsemi. Með samningnum er lögð áhersla á samnýtingu aðstöðu, húsnæðis og þekkingar á sviði nýsköpunar í þágu frumkvöðla og rannsakenda.
Eva Björk Káradóttir og Kamil Dąbrowski sigurvegarar KRUBBS
KRUBBUR er tveggja daga keppni þar sem áhersla er lögð á hugmyndir að lausnum sem tengjast ferðaþjónustu og ímynd Húsavíkur. Fyrirtæki og stofnanir á svæðinu kynntu fyrir þátttakendum raunverulegar áskoranir sem unnið var að lausnum við. Fimmtán teymi kynntu hugmyndir sínar þetta árið fyrir dómnefnd en sigurvegarar keppninnar voru Eva Björk Káradóttir og Kamil Dąbrowski með hugmyndina Norðurljósaslóð. Hún snýst um upplifun og útivist á dimmasta tíma ársins þar sem útivistarperlur svæðisins opnast fyrir almenningi með sérstakri lýsingu sem minnir á norðurljósin. Þau hlutu í verðlaun ársaðild að Hraðinu ásamt glæsilegum gjafakortum í gistingu og afþreyingu á Húsavík og nágrenni.
„Við óskum vinningshöfum, öllum þátttakendum og skipuleggjendum til lukku með framkvæmdina og öll þessi frábæru verkefni. Þá hlökkum við til frekara samstarfs með Þekkingarnetinu og Hraðinu,“ segir á vef HA.