Eiríkur Helgason hefur komið nokkrum sinnum við sögu hér á Kaffinu, bæði vegna snjóbrettaferilsins, sem hefur verið langur og farsæll, en einnig vegna Braggaparksins sem hann setti á laggirnar árið 2020. Nú er Eiki orðinn eini eigandi Birtu CBD en hann var um tíma í samstarfi með Emmsjé Gauta og öðrum en hann keypti út meðeigendurna og á hann nú fyrirtækið einn með konu sinni, Silju. CBD eða Kannabídíól er efni unnið úr kannabisplöntunni Cannabis Sativa. Efnið telst löglegt á Íslandi en þó ekki sem fæðubótarefni til að mynda. Margir lofa eiginleika CBD og er Eiki þeirra á meðal, en hvað kom til að hann fór í þessa vegferð?
„Ég fékk áhuga fyrir CBD þegar ég sá hvað margir snjóbrettafélagar mínir voru farnir að nota það frekar en verkjalyf þegar þeir voru slasaðir. Mér hefur alltaf verið meinilla við þessi sterku verkjalyf og hef alltaf forðast þau eins og heitan eld. Ég hef notað CBD bara nánast daglega eftir að við byrjuðum að selja það, þetta hefur hjálpað mér við að ná dýpri og fastari svefn, því eftir öll mín meiðsli í gegnum tíðina þá var ég farinn að venja mig á að vakna í hvert sinn sem ég breytti um svefnstellingar því eg var alltaf að passa meiðslin. Ég og konan mín Silja höfðum verið að tala aðeins um þetta og þá heyrir frændi minn, Ingólfur, í mér og spyr hvort ég hefði áhuga á að starta CBD fyrirtæki og þannig byrjaði ævintýrið.“
Sem íþróttamaður telur Eiki þetta mun öruggari kost heldur en sterk verkjalyf eða svefnlyf, þó svo CBD sé mun mildara efni. Þá segir hann að það geti hjálpað við að slá á væga verki í líkamanum, hjálpi til við endurheimt, veiti líkamlega og andlega slökun.
„CBD er bara fyrir alla sem vilja ná fram líkamlegri og andlegri slökun. Þessar vörur hafa reynst mjög vel við t.d. bólgum, verkjum, gigt, kvíða, stressi, svefnvandamálum og fleira. Það er svo gaman og gefur manni mikið þegar fólk sendir okkur reynslusögur af vörunum okkar,“ segir Eiki.
Um notkun á CBD
Ekkert allir skilja hvernig nota eigi CBD vörur og á vefsíðu Birtu er heil undirsíða með fróðleik um vörurnar, þar sem meðal annars er farið er yfir rétta notkun á vörunum og mismunandi styrk þeirra. Eiki útskýrði ferlið fyrir þær vörur sem hann hefur til sölu:
„Vöðvagelið er hitagel sem kemur í „roll on-túpu” sem er svakalega hentugt því þá þarf maður ekki að vera allur útataður í hitakremi á höndunum við að setja það á sig. Olíurnar koma með dropateljara og maður setur nokkra dropa undir tunguna og leyfa þeim að liggja þar í 1-2 mínútur, það sem er mjög gott að vita er að það getur tekið um 1-2 vikur fyrir virkni að koma fram og því mikilvægt að hætta ekki strax þó manni finnst þetta ekki vera gera neitt,“ segir Eiki glettinn.
„Ég hef alltof oft heyrt fólk segja að það prufaði CBD og það fann ekki fyrir neinum áhrifum. Svo þegar ég spyr hversu marga dropa þau tóku og í hversu langan tíma þá kemur í ljós að þau settu kannski 1 dropa upp í sig og svo ekki söguna meir. Þetta virkar nú ekki alveg þannig og ef maður ætlar að ná fullum áhrifum þá þarf maður að nota hana helst daglega því maður þarf í raun alltaf að fylla á forðann í líkamanum. Það má svoltið líkja þessu við notkun á lýsi, ef maður fær sér einn dropa í eitt skipti þá mun það gera mjög lítið fyrir þig, en ef þú tekur heilann dagskammt reglulega í langan tíma mun það hafa meiri og betri áhrif,“ bætir hann við.
„Ef þið eruð að pæla í hvort maður fari í vímu, þá er svarið nei“
„CBD er á mjög skrítnum stað í kerfinu á íslandi og ég held að það sé vegna þess að það er svo mikið af liði sem heldur að þetta sé fíkniefni því þetta kemur úr kannabisplöntunni, en eins og er þá er CBD í raun bara leyfilegt sem efni í snyrtivörum hér á landi. Þegar við störtuðum Birtu CBD árið 2020 þá héldum við að það væri verið að fara breyta þessum lögum og opna á að CBD yrði leyft sem fæðubótarefni. Það hefur enn ekki gerst og það heftir okkur töluvert en við höfum alltaf unnið eftir lögum og reglum, þannig að allar okkar vörur eru skráðar sem snyrtivörur og því fullkomlega löglegar hér á landi.“
„CBD er einn af fjölmörgum kannabíóðum í kannabisplöntunni, ef þið eruð að pæla í hvort maður fari í vímu, þá er svarið nei. THC er kannabíóðinn sem lætur mann fara í vímu. Olíur okkar eru svokallaðar „full spectrum” olíur sem þýðir að í þeim er að finna alla kannabíóðana sem finnast í kannabisplöntunni en vörurnar okkar eru unnar úr iðnaðarhamp sem eru með mjög lágu THC gildi, þannig að það er ómögulegt að fara í vímu af þeim.“
Vörurnar frá Birtu fást á heimasíðunni www.birtacbd.is auk þess eru þær fáanlegar í Braggaparkinu. „Svo erum við alltaf opin fyrir því ef einhver hefur áhuga á að selja vörurnar okkar og hvet ég alla sem hafa áhuga að hafa samband,“ segir Eiki að lokum.