Það eru tvær tegundir af skíthælum í heiminum – Taktu prófið

Skemmtilegir kúnnar.

Skemmtilegir kúnnar.

Það eru tvær tegundir af skíthælum í heiminum. Önnur er fólk sem fer á veitingastað, biður um tannstöngul og rífur hann síðan niður í öreindir og dreifir yfir borðið eftir notkun. Ekki bara er þetta ógeðslegt, að þrífa upp útslefaða tannstönglabita, heldur líka drulluerfitt að ná þeim öllum. Takk fyrir ekkert, skíthæll.

Hin tegundin er fólk sem kvartar undan öllu. Oft renna þessar tegundir saman í eitt og það er það sem við köllum: versti viðskiptavinurinn.
Svo dæmi séu tekin:

Bara afslátt, takk!
Á flestum veitingastöðum er það þannig að eftir að maturinn er borinn fram á borð athugar þú einhverjum augnablikum seinna hvort að allt smakkist ekki vel og hvort að gestunum vanti eitthvað.
Í langflestum tilvikum er svarað játandi, það er allt í góðu lagi. Svo þegar kemur að því að borga, þá var maturinn alveg skelfilegur! Greyið maðurinn rétt náði að pína í sig 200 gr. nautalundina sem var alveg skítleg á bragðið. Það var samt allt í góðu þegar spurt var um matinn, hann bara nennti ekki/kunni ekki við að segja eitthvað þá… Núna er hinsvegar mjög hentugur tími, þegar ekkert er hægt að gera fyrir manninn, nema auðvitað bjóða honum afslátt. Ég hef samt aldrei náð að átta mig á því hvernig fólk fer að því að pína ofan í sig heilan disk af ógeðslegum mat, en ég hef kannski bara aldrei verið svo svöng. Ætli einhverjir íslendingar sem hafa efni á að fara út að borða yfirhöfuð þurfi að pína ofan í sig hræðilegan mat vegna svengdar? Það er eitthvað sem ekki passar hérna, rannsóknarvinnu er mögulega þörf.

Ekki vera fávitar kæra fólk. Ef eitthvað er að, segið það um leið. Leyfið þjónustufólkinu að laga það sem á mis fer meðan þið eruð á staðnum. Ef að þið hinsvegar eigið ekki fyrir því að borga fullt verð fyrir matinn, eða týmið því ekki… ekki vera skíthælar, sleppið því frekar að fara út að borða.

Sérstaki gaurinn
Þennan lið kýs ég að kalla sérstaka gaurinn. Þið trúið því ekki hvað það er mikið til af einstöku fólki, sem telur sig verðskulda sérmeðferð af því að þau eru þau. Og auðvitað afslátt alltaf, að eilífu. Sérstaki gaurinn er þessi meistari sem biður um einfaldan gin og tonic, rúmlega. Hvað meinar hann með því? Nú, að barþjóninn helli tvöföldum en rukki hann fyrir einfaldann. Því það meikar sens.
Sérstaki gaurinn er líka þessi sem var með þér í grunnskóla í 2.bekk í tvo mánuði fyrir 14 árum en þú gefur honum nú að sjálfsögðu afslátt, því að þú þekkir hann. Ég persónulega elska að gefa afslátt þegar fólk ætlast til þess af mér og biður hreinlega um hann, það er eitthvað svo sexý.

Hneykslarinn
Þessi þarf ekki að vera langur, fremur er þetta leiðarvísir fyrir komandi fórnarlömb Hneykslarans. Hneykslarinn misskilur nefnilega alveg fæðukeðjuna, eða bara lífið yfir höfuð. Það verður aldrei þreytt að kvarta yfir fólki sem kvartar yfir verðum sem starfsfólk ræður engu um.
,,Djöfulli er þetta dýrt! Ertu ekkert að grínast með það að kók kosti 450 krónur?“
,,Jú, þegar þú segir það þá er þetta grín. Á ég ekki bara að breyta verðinu snöggvast?“
,, Ha? Getur þú það?“
Ef þú þurftir að spurja að þessu þá hefðum við getað forðast þessar samræður alveg.
Börnin í ólátagarði
Ég horfði aldrei á þá mynd og veit því ekki hvort að titillinn eigi við eða ekki. Titillinn á að eiga við það þegar foreldrar koma út að borða með börnin sín og halda að það sé eitthvað samasemmerki á milli þess að koma út að borða og fá ummönun fyrir börnin sín. Þó það sé barnahorn þýðir það ekki að þú getir bara sest niður, sötrað á rauðvíninu þínu og ekki skipt þér af þeim fyrr en að brottför kemur. Ég hef oft lent í því að missa næstum bakka á höfuðið á barni sem hljóp á mig í miðjum eltingaleik. Hverjum hefði svo verið kennt um að sulla yfir grey barnið og mögulega slasa það í leiðinni? Gettu einu sinni.

Í öllum mínum störfum sem þjónn, sem eru orðin nokkur, hef ég lent í börnum sem æla óvart út um allt, pissa einhversstaðar annarsstaðar en í klósettið, detta og slasa sig, skilja allan matinn sinn eftir tugginn og slefaðan á gólfinu og svo lengi mætti telja. Sumir foreldrar axla ábyrgð, sjá um börnin og bjóðast jafnvel til að þrífa upp eftir þau í þessum verstu tilvikum. Öðrum er alveg nákvæmlega sama. Látum þrælinn, þjóninn afsakið, þrífa þetta upp. Við erum búin að borga helling og hann vinnur nú einu sinni við þetta. Nei, ég vinn ekki við að þrífa upp eftir börn.Hefði ég einhvern stakasta áhuga á umönnun barna væri ég væntanlega að vinna á því sviði en ekki sem þjónn. Ég mundi halda að sömu reglur ættu að gilda fyrir alla einstaklinga þjóðfélagsins í mannasiðum. Ef að fullorðinn einstaklingur myndi subba út, æla eða missa hland einhversstaðar á veitingastað vil ég meina og vona, að sá hinn sami eða þeir sem með honum eru mundu bjóðast til að þrífa það upp. Þó það boð yrði sennilega ekki þegið og þjóninn fullvissað þau um að þetta sé ekkert mál, þá er þetta bara allt spurning um huginn á bakvið.

Þurfalingarnir
Það er stundum ekkert meira gefandi en að veita góða þjónustu. Það er líka stundum ekkert meira þreytandi en að veita góða þjónustu. Þetta á bæði við þegar átt er við Þurfalingana.
Oft þegar maður fær matinn vantar eitthvað með; salt, pipar, meiri sósu, litla kók með og þar fram eftir götum. Þurfalingarnir þurfa hinsvegar rosalega marga hluti. Þeir þurfa bernaisesósu, hvítlauksolíu, parmesan ost, kokteilsósu, frönskukrydd, annan bjór, eina vínflösku, salt og svo reyndar pipar líka, svo dæmi séu tekin. Þeim er það hinsvegar alveg ómögulegt að muna eftir þessu öllu á sama tíma. Þegar þjóninn kemur til baka með fyrsta hlutinn er munað eftir næsta og svo endurtekur þetta sig. Stundum 12 sinnum. Það er metið mitt, 12 ferðir fram og til baka á eitt borð á nokkrum mínútum. Annað hvort fatta Þurfalingarnir ekki að ég hafi hendur sem geta borið fleiri en einn hlut í einu eða þeim fannst ég einfaldlega þurfa á hreyfingunni að halda. Ég ætti þá kannski frekar að þakka þeim.

Computer says no
Það er ótrúlegt hvað tímaskyn fólks virðist vera brenglað þegar það bíður eftir mat. Sumir kúnnar virðast einfaldlega vera staddir í The Twilight zone, þar sem tíminn líður tvöfalt hraðar. Eða kannski er þetta fólk með leiðinlega borðfélaga og gera því ekkert annað en að horfa á eldhúshurðina opnast og giska hvort að þetta sé maturinn þeirra að koma. Í nútímasamfélagi eru flestir veitingastaðir með tölvukerfi sem þeir færa pantanir í. Þá prentast pöntunin út á réttum stöðum og allt gengur vel fyrir sig. Það er því alltaf jafn forvitnilegt þegar mikið er að gera og fólk fer að spyrja reiðilega hvort að maturinn sé ekki að fara að koma. Nú séu þau búin að bíða í góðar 50 mínútur eftir matnum. Þá fer þjónninn í panikk og fer að reka á eftir kokkunum. Svo þegar litið er í kerfið eru ekki nema 20 mínútur síðan maturinn var pantaður. Kúninn hefur samt alltaf rétt fyrir sér, nema þegar hann hefur ekki rétt fyrir sér, sem er oft. Computer says no, er þæginlegasta svarið við svona kvörtunum.
Það er samt heila málið, fólk byrjar að telja mínúturnar meðan það er að leggja fyrir utan.  Þau eru nefnilega búin að vera að bíða frá klukkan 8, þó að þau hafi setið og skoðað matseðilinn og fengið sér vín til 9.

Það komast því miður ekki fleiri liðir að í þessum pistli, þó að vissulega séu þeir fleiri.
Undir flestum kringumstæðum mundi ég kalla þetta ,,erfiða kúnna“ en dagurinn í dag er bara einn af þessum dögum. Svo hugsa ég af hverju ætti ég að reyna að fegra framkomu þessa fólks? Ekki misskilja mig samt. Ef eitthvað er að þegar þú ert að borga fyrir mat og/eða þjónustu þá áttu vissulega að láta vita af því og kvarta ef mikið er að. Það skiptir bara höfuð máli, í lífinu og á veitingastöðum, að koma fram við fólk eins og þú vilt láta koma fram við þig.

Að vinna sem þjónn er virkilega skemmtileg, gefandi, erfið og lærdómsrík vinna. Þetta er alveg sér atvinnugrein sem að fólk sem unnið hefur í henni veit að ber að virða. Það eru hinsvegar kúnnar eins og þessir listaðir hér sem að gera lítið úr þessari vinnu með því að haga sér eins og skíthælar. Afsakið, það verður bara ekki af því skafið. Það er samt ekki vegna þess að þjónastarfið er eitthvað verra en annað, það er af því að fólk er verra en annað og að sjálfsögðu ætti að setja það sem samfélagslega skyldu að fólk sinni framreiðslustörfum einhvern tímann yfir ævina. Þá væru sennilega ekki slæmir kúnnar til, eða allavega minna af þeim.

Sjá einnig: Bransasögur – Spegilmynd þjónsins

VG

UMMÆLI

Sambíó