Það er eitthvað að ganga…

Ingibjörg Bergmann Bragadóttir skrifar:

Hver kannast ekki við að fá flensu? Þessi óhjákvæmilegi hluti af árinu, einmitt þegar þú heldur að þú sért óstöðvandi, ósigrandi, að ekkert komi fyrir þig… – þá færðu flensuna. Hún slær þig tímabundið í rot og þú verður að sitja hjá í „eina eða tvær umferðir“, svo gripið sé til líkingar úr þekktu spili.

Og enn þá óhjákvæmilegra en það er að fá athugasemdina frá fólki að það sé nú einhver pest að ganga þegar þú ræðir um veikindi þín: „Já (og kinkar kolli um leið), það er einhver pest að ganga,“ segir það þá.
Er einhvern tímann ekkert að ganga? Lendir fólk almennt í því þegar það ræðir um veikindi sín við annað fólk að heyra: „Skrítið. Það er einmitt ekkert að ganga núna.“
Er einhver sem virkilega fylgist með því hvað er að ganga og hvað ekki? Eða er þetta allt saman byggt á engu? Sigga frænka á Dalvík var veik um daginn, sonur hennar líka. Þá hlýtur það eiginlega að vera að einhver veikindafaraldur sé á leið sinni um allt Norðurland! Ég skil hvaðan þetta kemur, því sjálf hef ég gerst sek um slíka hegðun. Yfirleitt hef ég nefnilega ekkert annað að segja um veikindi annars fólks. Það er einhvern veginn þægilegra að segja: „Já, það er einhver pest að ganga,“ heldur en að gera sér upp samúðarvorkunn með liðnum veikindum sem koma þér í rauninni ekkert við.

Fyrir þá sem eru að velta fyrir sér hver innblásturinn af þessum pistli er, þá held ég að það þurfi vart að taka það fram að ég fékk flensuna. Ástæðan er að öllum líkindum sú að eitthvað er að ganga.

Pistillinn birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 26. apríl.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó