Stytting vinnuvikunnar

Jana Salóme skrifar:

Það hefur sýnt sig að stytting vinnuvikunnar fækkar skammtíma veikindadögum hjá starfsfólki. Fólki líður betur í vinnunni sem hlýtur að minnka líkur á kulnun í starfi. Streita minnkar og afköst á vinnustöðum aukast. Það er ekki bara hagkvæmt fyrir andlega líðan þeirra fullorðnu að stytta vinnuvikuna heldur líka gott fyrir börnin okkar.

Fjölskyldan mun njóta góðs af styttingu vinnuvikunnar. Ísland slær öll met þegar kemur að viðveru barna í leikskóla. Íslensk leikskólabörn eru 220 daga á ári í leikskólanum en meðaltalið er 190 dagar skv. skýrslu OECD frá júní 2017 um stöðu leikskólamála víðsvegar um heiminn. Hver leikskóladagur er langur og íslenskir leikskólakennarar eyða tæpum 1500 tímum á ári í starfi með börnum, sem er met, en meðaltalið í heiminum er 1050 tímar. Leikskólar koma aldrei í stað samveru með foreldrum og styttri viðvera ætti að minnka kvíða barna, sem hlýtur að vera verðugt markmið. Það gleymist oft að leikskólinn er vinna barnanna okkar.

Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, lagði til í bæjarstjórn Akureyrar vorið 2016 að stofna starfshóp um styttingu vinnuvikunnar. Þá var ekki vilji til aðgerða hjá bæjarstjórn heldur átti að sjá hvað kæmi út úr tilraunarverkefnum Reykjavíkurborgar. Það er svona hugsunarháttur sem heldur aftur af okkur. Þegar við byggjum vinnuna ekki á framtíðarsýn festumst við í sama farinu.

Rökin gegn styttingu vinnuvikunnar hafa verið aukinn kostnaður og að sá möguleiki sé fyrir hendi að þetta gangi ekki upp á öllum vinnustöðum sveitarfélagsins. Hafa ber þó í huga að á móti kostnaði við styttingu vinnuvikunnar kemur sparnaður vegna færri veikindadaga, minni starfsmannaveltu og minni hætta á kulnun í starfi, svo dæmi séu tekin. Þau sem kulna í starfi eiga oft litla möguleika á endurkomu vegna sálrænna og líkamlegra kvilla sem erfitt er að vinna bug á eftir langvarandi hark við að reyna að samræma vinnu og fjölskyldu.

Með samvinnu og jákvæðni í farteskinu eru okkur allir vegir færir og við getum gert Akureyri að fjölskyldubænum sem svo mörg okkar dreymir um.

Höfundur skipar 2. sæti á lista VG til bæjarstjórnarkosninga.

Sjá einnig: 
Sóley ræðir á bæjarfundi kosti þess að stytta vinnuvikuna.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó