Framsókn

Stjarnan vill fá úrslitum gegn KA/Þór breytt

Stjarnan vill fá úrslitum gegn KA/Þór breytt

Dómstóll HSÍ hefur fengið til umfjöllunar kæru handknattleiksdeildar Stjörnunnar á úrslitum í leik liðsins gegn KA/Þór á laugardag. KA/Þór vann leikinn en í ljós hefur komið að eitt mark var oftalið. Rúv greinir frá.

Mistökin urðu á ritaraborðinu þegar ranglega var skráð mark á KA/Þór í stað Stjörnunnar en Stjarnan var sjálf framkvæmdaraðili leiksins. Stjarnan fékk svo markið skráð en ekkert mark var dregið af KA/Þór. Mistökin uppgötvuðust þó ekki fyrr en að leik loknum.

Stjarnan kærði í gær og vill fá úrslitunum breytt í jafntefli, 26-26. Dómstóll HSÍ hefur fengið málið til umfjöllunar og kallað eftir greinargerðum frá dómurum og HSÍ og frá KA/Þór. Frestur til að skila greinargerð er til fimmtudags og eftir það fær málið efnislega umfjöllun dómstólsins.

Dómstóll HSÍ hefur talsvert víðtækar heimildir í svona málum, samkvæmt framkvæmdastjóra HSÍ, Róberti Geir Gíslasyni. Dómstóllinn getur m.a. breytt úrslitunum, látið endurtaka leikinn í heild og látið endurtaka hann frá þeim tíma sem mistökin urðu. Þá getur dómstóllinn ákveðið að aðhafast ekkert og láta úrslitin standa. Reikna má með að dómstóllinn taki málið fyrir í byrjun næstu viku.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó