Stefán Elí gaf út plötu eftir vel heppnaða söfnun á Karolina Fund


Stefán Elí Hauksson er ungur tónlistamaður frá Akureyri sem sendi nýverið frá sér plötuna; I’m Lost Please Return If Found, eftir að hafa safnað fyrir útgáfu hennar á vefsíðunni Karolina Fund. Stefán er 18 ára gamall og stundar nám við náttúrufræðibraut Menntaskólans á Akureyri.

Stefán hefur hingað til aðallega gefið út hip hop tónlist en á nýju plötunni segist hann hafa kannað aðrar stefnur og stíla og hún sé fjölbreyttari en eldra efni hans.

„Lengi vel hlustaði ég einungis á hip hop en með tímanum, og sérstaklega eftir að ég fór að semja tónlist sjálfur, hef ég byrjað að hlusta á öðruvísi efni og nú fæ ég innblástur úr öllum áttum.”

Þrátt fyrir ungan aldur er platan I’m Lost, Please Return If Found önnur platan sem Stefán sendir frá sér, auk þess sem hann hefur sent frá sér nokkur lög til viðbótar. Stefán segir að það sé virkilega gaman að taka þátt í tónlistarlífi Akureyrar og að í augnablikinu sé mikið af ungu fólki að bralla eitthvað skemmtilegt.

„Fólk eins og til dæmis Birkir Blær og Ivan Mendez hafa mikil áhrif á tónlistarlífið í bænum og það er rosalega gaman.”

Vill starfa við tónlist
Stefán segir að hann ætli sér að halda áfram að einbeita sér að tónlistinni og að markmiðið sé að lifa á tónlistinni einn daginn.

„Mér líður eins og það sé ekkert annað í stöðunni fyrir mig heldur en að halda áfram að semja og spila því það er það sem mér þykir langskemmtilegast að gera. Ég ætla mér að lifa á tónlistinni og vil starfa við tónlist í framtíðinni.”

„Það sem mér þykir skemmtilegast við tónlistina er þegar maður er með einhverja hugmynd í hausnum og einhverjar tilfinningar sem maður vill tjá og manni tekst að koma því frá sér með tónlist. Ferlið þegar maður er alveg í „the zone“ og allt bara gengur eins og í sögu við að semja og útsetja er það sem mér finnst svo fáránlega gaman við tónlistina. Svo þykir mér reyndar virkilega gaman að spila og syngja, sérstaklega fyrir framan fólk.”

Söfnunin fór á fullt á síðustu dögunum
Eins og áður segir safnaði Stefán fyrir útgáfu nýju plötunnar á Karolina Fund. Hann segir að hann hafi fengið hugmyndina frá hljómsveitinni Volta sem var með svipaða söfnun í gangi fyrir ekki svo löngu.

„Þá fór af stað heilmikil rannsókn þar sem við skoðuðum fjöldann allan af verkefnum inni á síðunni og kynntum okkur hvernig þetta færi allt fram.“

„Karolina Fund virkar þannig að maður setur eitthvert takmark sem maður stefnir á að ná að safna upp að. Ef manni tekst ekki að safna upp að takmarkinu verður ekkert úr þessu svo þetta er í raun svona allt eða ekkert síða. Þegar það var vika eftir var ég alls ekki viss um að þetta tækist hjá okkur en svo á síðustu dögunum fór allt á fullt og þetta tókst á síðustu klukkustundinni.“

Vel heppnaðir útgáfutónleikar
Stefán hélt í kjölfarið útgáfutónleika í Hlöðunni, Litla Garði, sem gengu samkvæmt honum eins og í sögu. Hann spilaði öll lögin af nýja disknum en sum lögin voru höfð í öðrum búningi en á plötunni.

„Ég hef mikið verið að leika mér með svona looper græju undanfarið og ég ákvað að útsetja nokkur af lögunum á plötunni á gítar og nota svo þennan geggjað skemmtilega looper. Lögin hljóma þá í raun mjög frábrugðin því sem fólk heyrir á plötunni en mér fannst bara svo æðislegt að hafa þessa fjölbreytni á tónleikunum. Frá þeim sem ég hef heyrt fílar fólk gítarútsetningarnar í botn. Ég dró fram looperinn og gítarinn í fyrsta skipti þegar ég var að spila á árshátíð Akureyrarbæjar. Ég spilaði einnig á Akureyri Backpackers og fékk eftir bæði þessi gigg helling af jákvæðum athugasemdum þar sem fólk sagði að þeim þætti gítar- og loop-lögin svo skemmtileg.

Ég er bara fáránlega ánægður með þetta allt. Hellingur af fólki hjálpaði til við söfnunina og ég get ekki þakkað þeim nógu mikið. Útgáfutónleikarnir heppnuðust með prýði og ég er mjög þakklátur öllum þeim sem komu. Platan er núna komin inn á Spotify þar sem allir geta hlustað en ég á ennþá til nóg af diskum, bolum og plötum svo endilega heyrið í mér ef þið hafið áhuga.“

Viðtalið birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 26. apríl. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó