Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri á föstudaginn var komandi starfsár, sýningaskrá ársins 2021 og hlaðvarp Listasafnsins kynnt. Einnig var farið yfir starfsemi safnsins á ársgrundvelli og hlutverk þess á tímum Covid-19 faraldursins.
Sýningaárið 2021 hófst á laugardaginn
Sýningaárið 2021 hófst formlega um nýliðna helgi þegar samsýningin Sköpun bernskunnar 2021 var opnuð. Sýningin er sett upp sem hluti af safnfræðslu, með það markmið að gera sýnilegt og örva skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru skólabörn og starfandi myndlistarmenn. Myndlistarmennirnir sem boðin var þátttaka í ár eru Eggert Pétursson og Guðbjörg Ringsted. Þau eru bæði landsþekkt fyrir málverk sín þar sem blóm og jurtir eru uppistaðan. Aðrir myndlistarmenn sem sýna verk sín á árinu eru Erró, Hekla Björt Helgadóttir, Ragnar Kjartansson, Ann Noël, Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson, Erling T.V. Klingenberg og Karl Guðmundsson. Einnig má nefna samsýningu norðlenskra myndlistarmanna, Takmarkanir, og Gjöfin til íslenzkrar alþýðu – valin verk úr Listasafni ASÍ.
Hlaðvarpi hleypt af stokkunum
Hlaðvarp Listasafnsins á Akureyri verður á næstu dögum aðgengilegt á heimasíðu þess, youtube og í gegnum hlaðvarp Akureyrarbæjar. Nú þegar er búið að taka upp tvo fyrstu þættina þar sem Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, ræðir annars vegar við Guðrúnu Pálínu Guðmundsdóttur, sýningarstjóra yfirlitssýningar á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar, Lengi skal manninn reyna, og Þóru Sigurðardóttur, sýningarstjóra yfirlitssýningar á verkum Kristínar K. Þórðardóttur Thorodssen, KTh – málverk og ljósmyndir. Stefnt er að nýjum þætti í hverjum mánuði.
Smiðjur af ýmsum toga
Þriðjudagsfyrirlestrarnir verða áfram stór þáttur í fræðslustarfi Listasafnsins, en þeir eru settir upp í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri, Myndlistarfélagið og Gilfélagið. Þeir eru sem fyrr haldnir á þriðjudögum kl. 17-17.40 yfir vetrartímann. Fræðslustarfið heldur áfram að þróast og hefur aldrei verið boðið upp á jafn margar listsmiðjur og á þessu ári eða 15 talsins. Í því samhengi má nefna sérstakar danssmiðjur sem verða á barnamenningarhátíð í apríl. Leiðbeinendur verða Anna Richardsdóttir og Urður Sahr.
Listasafnið á Akureyri er í eigu Akureyrarbæjar og starfar í þágu almennings. Rekstrarkostnaður safnsins greiðist úr bæjarsjóði í samræmi við fjárhags- og starfsáætlun ár hvert. Safnið er ekki rekið í hagnaðarskyni. Stjórn Akureyrarstofu myndar stjórn Listasafnsins á Akureyri. Listasafnið á Akureyri er viðurkennt safn og fær stuðning frá Safnaráði. Aðrir bakhjarlar eru Norðurorka, Geimstofan, N4, Rub23 og Stefna.
UMMÆLI