Fólk hefur spurt mig oft í gegnum tíðina hvernig mér finnst að starfa sem þjónn. Er það ekki erfitt? Er það ekki gaman? Hvernig er það eiginlega? Ég get í rauninni ekki svarað.
Fólk spyr mig reyndar aldrei en ef að það mundi gera það þá gæti ég í rauninni ekki svarað.
Ef ég ætti þó að draga einhverskonar mynd af þessu þá mundi ég segja: ótrúlega skemmtilegt, ótrúlega erfitt stundum en umfram allt lærdómsríkt.
Það er frekar þurrt og leiðinlegt svar. Þetta er eitthvað sem ég myndi segja í atvinnuviðtali. Við vini mína mundi ég lýsa þessu svona:
Það er laugardagskvöld. Klukkan er að detta í 6 og það er rólegt yfir öllu. Eitt borð situr inni og ég veit að þetta er lognið á undan storminum. Það er fiskidagshelgi á Dalvík og það eiga allir eftir að koma á sama tíma og vilja fara á sama tíma. Það vill panta, fá drykkina sína helst áður en það er komið inn, fá matinn sinn strax, borða strax og fara út helst á sama tíma og það kom til að sleppa við umferðina út eftir. Það er sko flugeldasýning á eftir.
Byrjar ballið.
,,Við erum 14 saman“.
,,Ha? Þarf að panta borð?“
,,Þú sagðir að það væru 5 mínútur í bið eftir borði og núna eru þær orðnar vel yfir 6 mínútur!“
,,Ha? Er 20 mínútna bið í einn hamborgara?!“
Nei, það er 20 mínútna bið í 30 hamborgara, það vill bara svo til að þú átt einn af þessum þrjátíu. Það eru nefnilega 120 manns hérna inni eins og er og annað eins að bíða eftir borði.
Meðan 50 mismunandi raddir eru að tala við mig í einu, samstarfsfélagar að spurja mig spurninga, síminn er að hringja og það þarf að skipta um kút á bjórdælunni þá stoppa ég bara í smástund. Ég stend bara og horfi yfir fjöldann sem öll horfa á mig með eftirvæntingu, berjandi í úrin sín og næstum öskrandi: ,,DAAALVÍK“ með peppaðri fiskidagsröddu.
Meðan ég hugsa með mér hvar ég eigi eiginlega að byrja og hvort að Erfðagreining væri mögulega komin lengra en að klóna bara kind þá potar í mig, lítil og að ég hélt saklaus, stúlka. Hún stendur þarna fyrir neðan mig og heldur á gervivaskinum úr dótaeldavélinni úr barnahorninu. Vaskurinn er fullur af vökva. Hún biðlar til mín að taka vaskinn af henni, eins og um silfurfat væri að ræða. Ég neita fyrst að taka við þessu en hún segir mér að ég hreinlega verði að taka þetta.
Ég segi við hana að ég geti það ekki strax, ég hafi alltof mikið að gera. Hún ýtir þessu þá nokkurn veginn í hendurnar á mér þannig að upp úr skvettist örlítið.
,,Þetta er piss“, segir hún og heypur í burtu. Eftir stend ég fyrir framan fimmtíu manns sem enn eru að bíða eftir mér, nema nú haldandi á hlandi.
Ég sé spegilmynd mína í gula vökvanum. Hún var ekki falleg. Ég vissi að nú var að duga eða drepast. Gráta eða gefast upp. Bæði betra. Það var tvennt í stöðunni; að labba með þvagvaskinn, hægt og rólega eins og um sprengju væri að ræða, inn í uppvask og henda í uppvaskarann. Eða að hætta öllum mínum skyldum sem þjónn, finna stelpuna og skila henni þvaginu.
Hvorn kostinn hefðir þú valið?
UMMÆLI