NTC

Söfnuðu hátt í 1.5 milljónum til styrktar Kvennaathvarfsins á Norðurlandi

Söfnuðu hátt í 1.5 milljónum til styrktar Kvennaathvarfsins á Norðurlandi

Það söfnuðust samtals 1.380.249 krónur á rafrænu uppboði til styrktar Kvennaathvarfsins á Norðurlandi. Viðburðurinn var ætlaður til að vekja athygli á opnun kvennaathvarfsins sem opnaði í ágúst og sýna fram á mikilvægi þess að halda athvarfinu gangandi á Norðurlandi.

Kvennaathvarfið er staður fyrir konur og börn sem geta með engum hætti búið í sínu heimahúsi vegna ofbeldis. Stofnaður var framfærslusjóður sem mun hjálpa til við framfærslu kvenna og barna sem þar dvelja.

Kvennasjóðurinn var stofnaður sérstaklega fyrir þetta styrktaruppboð sem stóð yfir í sólarhring og fór fram rafrænt. Um 2600 manns skráðu sig í viðburðinn og tóku þátt. Um 60 fyrirtæki á Norðurlandi styrktu uppboðið með gjöfum.

Elísa Erlendsdóttir, Ída Oddsdóttir og Kolbrún Lind Malmquist stóðu að viðburðinum.

„Styrktaruppboðið varð til vegna verkefnis í skólanum hjá okkur en við erum í Háskólanum á Hólum í Viðburðastjórnun og Ferðamálafræði. Við áttum að halda viðburð en vegna Covid-19 þurftum við að hugsa út fyrir kassann og til varð þessi hugmynd,“ segir Ída í samtali við Kaffið.

„Við héldum samt að þetta yrði svo miklu minna, áttum engann veginn von á þessari þátttöku. Við erum ungar mæður svo málefnið snerti okkur allar og þótti okkur mikilvægt að vekja enn meiri athygli á þessu glænýja verkefni hér á Akureyri. Ef að okkur var einhverntímann óljóst hvort starfsemi athvarfsins skipti máli þá sýndi þessi viðburður okkur mikilvægi þess og gott betur en það.“

Sambíó

UMMÆLI