Strætóbílstjórar á Akureyri lögðu niður störf í morgun í einn og hálfan tíma frá klukkan 8:30 til 10:00 í mótmælaskyni. Bílstjórarnir voru óánægðir með óhreina klósettaðstæðu sem þeim var boðið uppá. Aðstaða þeirra var í sama húsnæði og Nætursalan en eins og Kaffið greindi frá í gær hætti Nætursalan rekstri með fimm tíma fyrirvara og lokaði. Starfsmenn Nætursölunnar sem sjá um að þrífa aðstöðuna voru því ekki til staðar.
Sigurður Gíslason, öryggistrúnaðarmaður hjá Strætisvögnum Akureyrar, segir í samtali við Vikudag, ekki hafi verið þrifið á salernunum eða á kaffistofunni í þrjár vikur og það sé óásættanlegt.
Jónas Vigfússon,forstöðumaður Umhverfismiðstöðvar Akureyrar segir í samtali við fréttastofu Rúv að það ætti þó ekki að bitna á íbúum bæjarins.
„Við kláruðum að hreinsa út í gær og svo átti að þrífa í dag,” segir Jónas við Rúv. Hann segist hafa fengið símtal frá verkstjóra strætó í morgun þar sem honum var tilkynnt að þeir væru hættir að keyra. Hann rauk til og sagði þeim að það ætti ekki að bitna á íbúum að þeir séu óánægðir í vinnunni.
Jónas skutlaði ósáttum íbúum sjálfur á milli staða áður en akstur Strætó hófst á ný. Nú hefur aðstæðan verið þrifin og samningaviðræður við ræstingafyrirtæki um að taka við þrifunum farnar af stað.
UMMÆLI