Skora á bæjaryfirvöld að huga betur að gróðursetningu trjágróðurs í hverfum Akureyrar

Skora á bæjaryfirvöld að huga betur að gróðursetningu trjágróðurs í hverfum Akureyrar

Á stjórnarfundi Skógræktarfélags Eyfirðinga sem haldinn var í Kjarnaskógi í gær, 18. október 2023, var ákveðið að senda áskorun til bæjaryfirvalda á Akureyri að huga betur að gróðursetningu trjágróðurs í nýjum og nýlegum hverfum bæjarins s.s. samsíða akbrautum eða á grænum svæðum.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar, segir að þetta sé klárlega eitthvað sem þurfi í meira mæli að huga að í deiliskipulagsgerð nýrra hverfa, þéttingu byggðar og endurskipulagsgerð iðnaðar- og verslunarlóða.

„Ásamt því að huga betur að umgengni og þrifnaði við framkvæmdir og eftirlit við frágang. Við getum öll gert betur,“ skrifar Sunna á Facebook síðu sinni.

Ályktun Skógræktarfélagsins má lesa í heild hér að neðan:

Stjórnarfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga haldinn í Kjarnaskógi þann 18. október 2023 beinir þeirri áskorun til bæjaryfirvalda að hugað verði betur að gróðursetningu trjágróðurs í nýjum og nýlegum hverfum bæjarins s.s. samsíða akbrautum eða á grænum svæðum.

Nútímaskipulag með þéttari íbúðabyggð gerir íbúum oft erfitt um vik að rækta stór tré í görðum sínum líkt og finna má í eldri hverfum. Því hefur mikilvægi þess aukist að hugað sé að skipulagningu trjágróðurs utan hefðbundinna lóðarmarka fasteigna.

Félagið beinir einnig þeirri áskorun til bæjaryfirvalda að við endurskipulagningu eldri svæða sé trjágróðri á vegum bæjarins þyrmt eins og kostur er og gert ráð fyrir nýjum þar sem fórna þarf trjám.

Tré, einkum stór tré, bæta lífsgæði íbúa í bænum. Þau binda mikið magn kolefnis sem skiptir miklu máli í baráttunni við hamfarahlýnun af mannavöldum. Að auki mynda þau skjól fyrir vindum og draga úr svifryks- og hljóðmengun. Jafnframt er búið að sýna fram á að gróður hefur jákvæð áhrif á sálarlíf manna af öllum kynjum, enda leitar fólk í skóga. Því er mikilvægt, fyrir lýðheilsu og fegurð bæjarins, að bæjaryfirvöld geri trjágróðri hátt undir höfði.

Skógræktarfélag Eyfirðinga er boðið og búið í samvinnu við bæjarfélagið að hlúa að því gróðursæla og hlýlega yfirbragði sem einkennir Akureyri. Stefnum saman að grænni og gróðursælli borg í norðri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó