Hljómsveitin Skandall sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri með einstaklega litríku og líflegum flutningi í Háskólabíói í gærkvöldi. Hljómsveitina skipa þær Helga Björg Kjartansdóttir, bassi, Inga Rós Suska Hauksdóttir, söngur, Kolfinna Ósk Andradóttir, hljómborð og fiðla, Margrét Sigurðardóttir, gítar, Sóley Sif Jónsdóttir, trommari, hljómborðsleikari og söngkona, og Sólveig Erla Baldvinsdóttir, flautuleikari.
Hljómsveitin flutti lagið Plug In Baby með bresku hljómsveitinni Muse með íslenskum texta, enda er það regla að öll lög skuli flutt á íslensku í lokakeppninni. Flutningur stúlknanna skar sig úr þar sem um var að ræða eina atriðið þar sem var heil hljómsveit keppenda á sviðinu. Í öðru sæti var Tækniskólinn og í því þriðja Menntaskólinn í tónlist. Dómnefndina skipuðu þau Diljá Pétursdóttir, tónlistarkona, Pálmi Gunnarsson, tónlistarmaður, og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, leikkona og tónlistarkona.
Flutning Skandals má finna á vef RÚV með því að smella hér
Nánar má lesa um Skandal á vef Menntaskólans á Akureyri hér.