NTC

Sjáumst eða skjáumst

Sjáumst eða skjáumst

Maðurinn hefur ýmsar þarfir til að vaxa og dafna. Líkamlegar þarfir eru nokkuð augljósar eins og næring, súrefni og hvíld. Öryggisþarfir eru manninum einnig mikilvægar en það snýst um að hafa þak yfir höfuðið og ná endum saman mánaðarlega svo dæmi séu tekin. En svo eru það félagslegu þarfirnar enda er maðurinn félagsvera. Það er honum eðlislægt að verja tíma með öðru fólki og mynda félagsleg tengsl. En er það ekki deyjandi list með sífelldri þróun tækninnar? 

Hér áður fyrr fór fólk í hverfisbúðina til að versla í matinn. Það þekkti starfsfólkið og spjallaði við það um daginn og veginn. Í dag er hins vegar hægt að sitja heima og klára innkaupin með því að ýta á nokkra takka. Svo berast matvörurnar heim að dyrum án þess að hafa nokkur samskipti við neinn mann. Þetta býður vissulega upp á þægindi en á sama tíma getur þetta verið varasöm þróun. Sérstaklega þar sem þessi þróun virðist vera að eiga sér stað á mörgum sviðum lífsins. 

Skólar eru annað gott dæmi um þessa framþróun. Hið hefðbundna form er þannig að nemendur mæta á ákveðinn stað og sitja kennslustund undir handleiðslu kennara. Nemendur fá tækifæri til að eiga í samskiptum við samnemendur sínar og spyrja kennarann þegar þörf er á. Nú er aftur á móti fjarnám að verða sífellt algengara. Mögulega vegna þess að það býður upp á mikinn sveigjanleika enda geta nemendur lært hvar sem er, hvenær sem er. Eina sem til þarf er tölva og gott netsamband. Það sækjast margir eftir þessu námsformi enda er auðveldlega hægt að vinna með námi og láta námið passa inn í daglega rútínu sína. Fjarnám bjargaði einnig miklu þegar heimsfaraldur gekk yfir heiminn þar sem fólk gat stundað nám frá heimilum sínum. En er æskilegt að fjarnám taki alveg yfir staðnám? Að hætt verði að bjóða upp á þann möguleika að mæta á staðinn og stunda námið með þeim hætti?  

Félagsleg einangrun og einmanaleiki er stórt vandamál í samfélaginu okkar og verður ef til vill bara stærra á næstu árum. Það er afar neikvæð þróun enda sýna rannsóknir að einmanaleiki hefur slæm áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Félagsleg færni er eitthvað sem þarf virkilega að rækta og fundu margir fyrir því að sú færni ryðgaði á meðan COVID gekk yfir. Við duttum einfaldlega úr formi frá því að vera innan um fólk. Ástandið er vissulega ekki eins slæmt núna og á þessum tímum en það er ekki spurning að félagsleg færni fer minnkandi. Og samhliða eykst hættan á einamanaleika meðal fólks. En hvað getum við gert?

Jú, við getum mætt á staðinn. Farið á hittinga. Sóst eftir staðnámi. Kíkt í bíó. Mætt á viðburði. Við getum skipulagt samverustundir með fólkinu í kringum okkur. Og kannski kynnst nýju fólki. Af því að við erum félagsverur. Með erum sköpuð til að tilheyra samfélagi, til að mynda tengsl við annað fólk. Þannig erum við nefnilega fær um að blómstra og upplifa vellíðan í daglegu lífi. Er þetta nokkuð spurning? Sjáumst frekar en skjáumst.   

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó