Þórskonur spiluðu tvo útileiki í 1.deild kvenna í körfubolta um helgina. Á laugardag mætti liðið Hamri frá Hveragerði og á sunnudag mættu þær Fjölni í Reykjavík.
Í fyrri leiknum gegn Hamri þurfti að framlengja leikinn eftir að lokatölur urðu 64-64 eftir venjulegan leiktíma. Í framlengingunni reyndust Þórsstelpur sterkari og unnu hana 8-15. Lokatölur leiksins 72-79 Þór í vil. Þórsstúlkur því unnið fyrstu tvo leikina á tímabilinu, góð byrjun hjá þeim.
Stigahæstar í liði Þórs voru Heiða Hlín Björnsdóttir með 24 stig og 6 fráköst, Sædís Gunnarsdóttir var með 16 stig, Erna Rún Magnúsdóttir 8 stig 10 fráköst og 6 stoðsendingar, Árdís Eva var einnig með 8 stig og Gréta Rún með 2 stig og 4 fráköst.
Á sunnudaginn mætti liðið Fjölni í Reykjavík. Fjölniskonum hafði verið spáð góðu gengi fyrir tímabilið og talið það lið sem væri líklegast að berjast við Grindavík og KR um sæti í efstu deild. Leikurinn var spennandi en á lokamínútunum var staðan 72-70 Fjölni í vil og allt mögulegt. Það fór svo að Fjölniskonur tryggðu sér að lokum 76-72 sigur í miklum baráttuleik.
Hjá Þór var Helga Rut Hallgrímsdóttir stigahæst hún skoraði 19 stig og tók 12 fráköst. Gréta Rún Árnadóttir lék einnig vel og var með 14 stig, Heiða Hlín var með 10 stig og 7 fráköst, Hrefna Ottósdóttir og Sædís Gunnarsdóttir 9 stig hvor, Árdís Eva Skaftadóttir 5 stig og Erna Rún Magnúsdóttir með 4.
Næstu leikir Þórs verða tveir útileikir gegn toppliði Grindavíkur helgina 28. og 29. október.
UMMÆLI