Samkomulag um VERÐANDI listsjóð endurnýjað til ársins 2028

Samkomulag um VERÐANDI listsjóð endurnýjað til ársins 2028

Í dag var samkomulag um rekstur og framlög til listsjóðsins Verðandi endurnýjað til þriggja ára, en veitt hefur verið úr sjóðnum árlega frá 2018.

Samkomulagið undirrituðu þau Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Þórleifur Stefán Björnsson, formaður stjórnar Menningarfélagsins Hofs, og Eva Hrund Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar. Undirritunin fór fram í Menningarhúsinu Hofi.

Megintilgangur sjóðsins er að styrkja listafólk til að nýta Menningarhúsið Hof sem vettvang fyrir listsköpun sína. Listsjóðurinn á að auðvelda ungu listafólki og þeim sem starfa utan stofnana að nýta sér þá fyrirmyndaraðstöðu sem Hof hefur upp á að bjóða, stuðla að fjölbreytileika í listviðburðum í húsakynnunum og nýta þá möguleika sem þar eru fyrir fjölbreytta viðburði.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fagnar því að búið sé að endurnýja samkomulagið. „Með listsjóðnum Verðandi opnast tækifæri fyrir ungt listafólk og þau sem starfa utan stofnana til þess að nýta Hof og það hefur sannarlega sýnt sig að þeir viðburðir sem hafa fengið styrk í gegnum sjóðinn hafa aukið á fjölbreytni í viðburðahaldi í menningarhúsinu okkar.

„Við fögnum því að framhald verður á samstarfinu því Verðandi sjóðurinn skiptir miklu máli fyrir ungt listafólk. Við fögnum því einnig innilega að geta stutt við þetta flotta verkefni sem hefur sannarlega sýnt að beri gjöfula ávexti í fjölbreyttum viðburðum í Hofi,“ segir Þórleifur Stefán Björnsson formaður stjórnar Menningarfélags Hofs.

„Það er einkar ánægjulegt að geta stutt grasrótarstarf í listum með þessum hætti þar sem sjóðurinn er mikilvægur stuðningur fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í list sinni. Styrkþegar VERÐANDI hafa til þessa sett mark sitt á fjölbreytni viðburða í Hofi og gert samfélagið okkar ríkara fyrir vikið“ segir Eva Hrund Einarsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir á heimasíðu Menningarfélagsins, www.mak.is/is/verdandi, þar sem hægt er að sækja um styrki vegna viðburða sem fram fara í Menningarhúsinu Hofi á tímabilinu ágúst 2025 til júlí 2026. Umsóknarfrestur er til og með 20. maí næstkomandi.

Sambíó
Sambíó