Gæludýr.is

Samkaup minnkar matarsóun í samstarfi við Lautina

Samkaup minnkar matarsóun í samstarfi við Lautina

Samkaup bæta við samstarfsaðila í átaki sínu gegn matarsóun. Fyrirtækið hefur veitt mataraðstoð að verðmæti sem nemur 70 milljónum króna það sem af er ári, og stefnir í að gera enn betur fyrir árslok

Samkaup undirrituðu nýlega samning við Lautina, athvarf rekið af Akureyrarbæ fyrir fólk með geðsjúkdóma á Akureyri, með það að markmiði að minnka matarsóun í verslunum sínum og styðja gesti Lautarinnar með matargjöfum. Verkefnið er hluti af markvissu átaki Samkaupa um allt land um mataraðstoð gegn matarsóun.  

Markmið samkomulagsins er að vinna í sameiningu að því að minnka matarsóun og förgun matvæla og stuðla að samfélagslegri ábyrgð í nærsamfélagi verslana. Verkefnið snýr að því að Samkaup mun gefa Lautinni matvæli sem annars yrði fargað en er þó enn hægt að nýta í matseld. Lautin mun annað hvort gefa skjólstæðingum sínum þennan mat eða nýta á annan hátt innan starfsemi sinnar. 

„Við erum afar ánægð með árangurinn í átakinu gegn matarsóun og hversu vel hefur gengið að bjóða fleirum með í vegferðina. Við höfum átt í samtali við Ólaf og Anítu hjá Lautinni síðustu mánuði og það gleður okkur hversu vel okkur var tekið og að hafa nú fengið þau með okkur í að sporna gegn matarsóun í verslunum okkar á Akureyri. Það er hagur okkar allra sem samfélags að draga sem mest úr matarsóun, en þá er einnig mikilvægt fyrir okkur hjá Samkaupum að að láta gott af okkur leiða í nærsamfélaginu og styrkja þau sem eru að vinna að bættri velferð fólks. Það er ánægjulegt að geta gert hvort tveggja í einu,“ segir Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum.

Lautin er athvarf fyrir fólk með geðrænar áskoranir, staðsett í Brekkugötu 34 á Akureyri. Markmið Lautarinnar er að draga úr félagslegri einangrun í samfélaginu og skapa umhverfi þar sem gagnkvæm virðing og traust ríkir á milli gesta og starfsmanna. Alla virka daga er boðið upp á heitan mat í hádeginu og kaffi allan daginn. Lautin er opin virka daga kl. 9 til 15 og eru allir velkomnir.

„Við leggjum mikla áherslu á að það sé notalegt andrúmsloft í Lautinni, við spilum mikið, prjónum, heklum, förum í göngutúra og spjöllum saman. Það er okkar von að með þessu flotta samstarfi við Samkaup getum við lagt enn meira til samfélagsins og komið til móts við þá sem þurfa á því að halda, ekki bara með opnum örmum og góðum félagsskap, heldur einnig með matargjöfum,“ segja fulltrúar Lautarinnar, Ólafur Torfason og Aníta Einarsdóttir

Markvisst átak gegn matarsóun um allt land

Verkefnið er liður í umfangsmikilli samfélagsstefnu Samkaupa, eiganda og rekstraraðila verslana Nettó, Kjörbúða og Krambúða, sem hefur skýr markmið um mataraðstoð gegn matarsóun. Mikil áhersla er lögð á að samfélagsábyrgð sé samþætt allri starfsemi fyrirtækisins og hafa Samkaup til að mynda gefið mat og aðrar nauðsynjavörur fyrir 70 milljónir kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins 2024. Samkaup reka yfir 60 verslanir víðs vegar um landið og rík áhersla er lögð á að styðja við nærsamfélagið á hverjum stað með fjölbreyttum hætti.

Ásamt nýjum samningi við Lautina hafa Samkaup starfað um árabil með Hjálpræðishernum í Reykjavík, Reykjanesbæ og á Akureyri, og með Vesturafli á Ísafirði. Þá gefa verslanir Samkaupa einnig matvörur í frískápa á höfuðborgarsvæðinu og á Húsvík. Þetta átak hefur séð hundruðum einstaklinga fyrir heitri máltíð eða að þeir geti sótt mat- og nauðsynjavöru til að taka með sér heim alla virka daga.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó