Einn helsti skemmtistaður Akureyrar, Pósthúsbarinn, kemur til með að loka 29. febrúar. Þetta staðfestir rekstraraðili Pósthúsbarsins í samtali við Kaffid.is. Pósthúsbarinn hefur skemmt Akureyringum og verið einn helsti dansstaður margra frá því að hann opnaði árið 2010. Ekki eru margir skemmtistaðir starfræktir á Akureyri og því er þetta nokkuð högg á skemmtanalíf Akureyringa.
Tíu ára leigusamningur staðarins rennur út nú í febrúar og ætla húseigendur sér ekki að endurnýja samninginn. Ekki er vitað hvað húseigendur ætla sér að gera með staðinn en þeir hafa hugsað sér eitthvað annað en skemmtistað undir þetta pláss.
Í samtali við kaffid.is segja forsvarsmenn Pósthúsbarsins að eins og er séu engin áform um framhald Pósthúsbarsins. Því verðum við að bíða og sjá hvað kemur næst í skemmtanalífi Akureyringa.
UMMÆLI