Vegagerðin tilkynnti í dag breytingar á gjaldskrá Hríseyjarferjunnar Sævars sem taka munu gildi þann 1. maí næstkomandi. Margir Hríseyingar hafa lýst yfir ósætti yfir því að fargjald í svokallaðar upphringiferðir rúmlega tvöfaldast með nýrri gjaldskrá
Með nýrri gjaldskrá hækkar almennt fargjald fram og til baka með ferjunni frá 1.700 krónum í 2.000 krónur fyrir fullorðna. Fyrir ungmenni, aldraða og öryrkja hækkar gjaldið úr 850 krónum í 1.000 krónur.
Talsvert meiri verðhækkun verður á svokölluðum upphringiferðum. Það eru ferðir sem ekki eru farnar að vetri til nema þær séu pantaðar fyrirfram. Þær ferðir eru klukkan 23 öll kvöld, klukkan 7 að morgni á laugardögum og klukkan 9 að morgni á sunnudögum. Á núverandi gjaldskrá er fargjald í slíkar ferðir 1.700kr fyrir fullorðna og 850 kr fyrir ungmenni, aldraða og öryrkja. Það er því sama gjald og fyrir aðrar ferðir, en dugar aðeins aðra leið. Samkvæmt nýrri gjaldskrá munu þessar ferðir kosta 3.700 krónur fyrir alla farþega. Fargjaldið mun því rúmlega tvöfaldast og afsláttur verður afnuminn fyrir ungmenni, aldraða og öryrkja.
Ingólfur Sigfússon, formaður hverfisráðs Hríseyjar, er ekki poll sáttur með hækkunina og segir hana stangast á við framkomu ríkisins í garð eyjaskeggja á öðrum sviðum. Hann tjáði sig um málið á Facebook síðu sinni í kvöld: „Það er algjörlega óþolandi að ríkisstofnun skuli boða slíka verðhækkun og skerða þar með búsetuskilyrði okkar sem búum í Hrísey á svipuðum tíma og styrkir hafa fengist frá ríkinu til að styðja við byggð í eyjunni. Önnur höndin gefur en hin tekur.“
Ingólfur segir þessa ákvörðun hafa verið tekna án nokkurs samráðs við Hríseyinga sjálfa. „Við munum ekki sætta okkur við þetta þegjandi og hljóðalaust,“ segir hann að lokum. Færslu hans í heild sinni má sjá hér að neðan.
Annar Hríseyingur sem hefur tjáð sig um málið er Ásrún Ýr Gestsdóttir, varabæjarfulltrúi hjá Akureyrarbæ. Í færslu á Facebook síðu sinni bendir hún á raunkostnað þessarra breytinga með því að taka dæmi. Hún segir að skiljanlega sé lítið um menningarviðburði eins og tónleika í Hrísey, enda lítið samfélag. Hríseyingar þurfi því að fara í land til þess að sækja slíka viðburði, sem oftar en ekki fara fram á kvöldin og krefjast því þess að panta upphringiferð til að komast heim með ferjunni. Eins og staðan er í dag kostar það hennar fimm manna fjölskyldu 6.800 krónur að fara heim með ferjunni klukkan 23:20 ef þau vilja til dæmis mæta á tónleika á Akureyri sem hefjast klukkan 20. Þegar ný gjaldskrá tekur gildi mun sama ferð kosta hennar fjölskyldu 18.500 krónur. Þetta telur hún ekki ásættanlegt. Færslu hennar má lesa í heild sinni hér að neðan.