Maven, þjónustu- og ráðgjafafyrirtæki í upplýsingatækni hefur fengið til liðs við sig tvo nýja starfsmenn, auk þess sem einn nýr meðeigandi hefur slegist í hópinn. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Reykjavík og starfsstöð á Akureyri.



Árni Böðvar Barkarson er nýgenginn til liðs við Maven. Hann er með B.Sc. gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið 94 ECTS einingum í stærðfræði frá Háskóla Íslands. Hann er nú í námi til M.Sc. í tölfræði við Háskóla Íslands. Árni hefur víðtæka starfsreynslu þegar kemur að gögnum, meðal annars sem gagnaforritari hjá Controlant og sem sérfræðingur í stofngögnum (e. master data manager) hjá Marel.
Einar Þór Gunnlaugsson er nýr meðeigandi í Maven. Hann er gagnasérfræðingur með M.Sc. gráðu í upplýsingatæknikerfum frá Háskólanum í Lundi, Svíþjóð og B.Sc. í viðskiptafræði með áherslu á fjármál frá Háskóla Íslands.Einar starfaði sem gagnasérfræðingur með áherslu á tækninýjungar og nýtingu gagna í Svíþjóð áður en hann var ráðinn til starfa hjá Maven árið 2023.
Mateuz Cytrowski er gagnaverkfræðingur, hefur starfað frá Varsjá í Póllandi sem ráðgjafi hjá Maven og hefur nú verið fastráðinn til fyrirtækisins. Hann er með M.Sc. gráðu í gríðargögnum (e. big data) og viðskiptagreiningum frá IE Business School í Madríd og hefur langa og víðtæka reynslu í gagnagreiningum og upplýsingatækni.
„Við höfum frá stofnun fylgt skýrri stefnu til sex ára; fyrst lögðum við megináherslu á vöxt og stækkun teymisins, en svo á að treysta á stöðugleika og efla hæfni hópsins og nýsköpun enn frekar,“ segir Helgi Hrafn Halldórsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Maven. „Við finnum mikla eftirspurn eftir sérþekkingu okkar, þjónustu og lausnum sem auka rekstrahagkvæmni fyrirtækja og þessar nýju ráðningar og fjölgun í hópi meðeigenda styrkir okkur svo um munar. Við erum hæstánægð með að fá Einar í meðeigendahópinn og njóta krafta hans áfram og bjóðum Árna og Mateuz hjartanlega velkomna til okkar.“
Um Maven
Í tilkynningunni segir: Maven er framsækið þekkingarfyrirtæki í upplýsingatækni sem hóf rekstur sinn árið 2021. Félagið býður upp á framsæknar lausnir í vaxandi geira þjónustu- og ráðgjafarfyrirtækja í upplýsingatækni og nýtingu ganga. Maven vinnur náið með fyrirtækjum og stofnunum í að umbreyta gögnum í þekkingu og verðmæti. Lögð er áhersla á að þróa skapandi og nýstárlegar leiðir til að greina, skilja og nýta gögn til hins ýtrasta. Nánari upplýsingar á www.maven.is