NTC

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 4. Íslandsdvölin

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 4. Íslandsdvölin

Þann 12. desember 1941, fimm dögum eftir árásina á Pearl Harbor, lagði herskip af stað frá Bandaríkjunum áleiðis til Íslands. Fáir um borð vissu hvert stefnan yrði tekin. Stór hópur bandarískra hermanna var á leið til eyjunnar afskekktu í Atlantshafi. Ethel Hague Rea og tíu samstarfskonur hennar í ameríska Rauða krossinum voru um borð í skipinu, klæddar gráum einkennisbúningi og tilbúnar að gleðja ameríska setuliðsmenn hvar sem borið yrði niður. Meðal þeirra voru Mary Dolliver, Elizabeth Clark og Nancy Duncan.

Eitt af því sem ég rak augun í á netinu í leit minni að upplýsingum um Ethel, er bók sem kom út árið 1943. Hún heitir They sent me to Iceland og er skrifuð af einni úr hópnum.Í bókinni lýsir Jane Goodell sjóferðinni til Íslands og vistinni hér á landi. Ég hugsa með mér; „ja, þarna er líklega komin heimild sem varpar einhverju ljósi á dvöl Ethel Hague Rea á Íslandi á stríðsárunum – sópransöngkonunnar með nótnaheftið“. Kannski leynist eitthvað þarna sem útskýrir hvernig nótnaheftið hennar lenti hjá Ingimari Eydal. Ég finn eintak af bókinni á netinu og sé fljótt að Ethel kemur nokkuð við sögu. Ég gleymi mér við lesturinn…

Þessi ellefu manna hópur kvenna sem starfaði fyrir ameríska Rauða krossinn var hinn fyrsti til að sigla yfir hafið með það að markmiði að skemmta bandarískum hermönnum í seinni heimsstyrjöldinni. Enginn úr þeirra röðum vissi hvernig ætti að hafa ofan fyrir hermönnunum á Íslandi. Ethel og hinir frumkvöðlarnir í hópnum renndu blint í sjóinn með förinni hingað til lands. Þær fengu þó að spreyta sig á leiðinni því það kom í þeirra hlut að halda jólin hátíðleg um borð og bjóða upp á skemmtiatriði t.d. söng. Skipið, sem hafði áður gegnt hlutverki farþegaskips og verið í siglingum til Puerto Rico, lagðist við höfn í Reykjavík í janúar 1942. Þegar hér er komið sögu, gef ég mér að nótnaheftið sé komið til Íslands, kannski geymt í einu af þeim þremur koffortum sem Ethel hafði með sér.

Ethel kom sér fyrir í frekar óvistlegum bragga í höfuðborginni og hóf að undirbúa þjónustu við setuliðsmenn hér. Um tíma starfaði hún ásamt samstarfskonu sinni Doris Thain í fiskiþorpi skammt frá braggahverfinu. Á Íslandi átti hún eftir að dveljast til haustsins 1943, samtals í 21 mánuð. Meðal verkefna hennar hér var að bæta tómstundaaðstöðu setuliðsmanna og tryggja aðgengi þeirra að afþreyingu og menningu sem var af skornum skammti þegar Rauðakross-konur komu til landsins.

Ein af þeim áskorunum sem stöllurnar stóðu frammi fyrir var skortur á húsnæði. Hvert skúmaskot var því nýtt til að setja upp leikrit, koma fyrir spilum eða annað til að létta setuliðsmönnum lundina. Allt voru þetta skammtímalausnir og ljóst að tómstundastarfsemi fyrir þá hér kallaði á varanlegt húsnæði. Það varð að veruleika 16. september 1942 þegar fyrsta tómstundamiðstöðin á vegum ameríska Rauða krossins var tekin í notkun í Reykjavík, tveimur árum upp á dag áður en Marlene Dietrich spásseraði um braggahverfi Reykjavíkur.

Snemma árs 1943 fengu Ethel og vinkonur hennar góðan liðsauka þegar einn efnilegasti píanóleikari Bandaríkjanna kom hingað til starfa á vegum ameríska Rauða krossins. Þannig má telja líklegt að leiðir þeirra, þ.e. Ethel og píanóleikarans, hafi legið saman mánuðina sem eftir lifðu áður en Ethel fór af landi brott. Grenndargralið hefur undir höndum heimildir sem staðfesta heimsókn unga píanóleikarans og samstarfsaðila Ethel hjá Rauða krossinum, til Akureyrar í ársbyrjun 1944.

Er hugsanlegt að nótnahefti sópransöngkonunnar hafi leynst í fórum píanóleikarans við komuna til Akureyrar?

Sjá einnig

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 1. Fundurinn

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 2. Söngbókin

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 3. Ethel

Framhald…

Mynd af Rauðakross-starfsfólkinu eftir komuna til Íslands í janúar 1942. Myndin er tekin í maí sama ár. Líklega er Ethel Hague Rea á myndinni. Grenndargralið getur sér til að hún sé fyrir miðri mynd í öftustu röð. Myndin er tekin úr bók Jane Goodell, The sent me to Iceland.

Heimild: Grenndargralið

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó