Nótnahefti sópransöngkonunnar – 3. Ethel

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 3. Ethel

Að svo komnu máli liggur beinast við að byrja á að rifja upp athuganir sem ég gerði á síðasta ári á veru setuliðsins í Hlíðarfjalli. Ég rakst á mörg erlend nöfn í tengslum við þá vinnu. Að mestu leyti var þar um nöfn karlmanna að ræða. Þá má slá því föstu að Ethel Hague Rea er ekki dulnefni yfir hina heimsþekktu Marlene Dietrich sem kom nokkuð við sögu. Ég minnist þess að hafa lesið mér til um skemmtun sem ameríski Rauði krossinn stóð fyrir á Akureyri á umræddu tímabili. Meira hafði ég ekki í höndunum þegar Ásta hafði samband og ekki um annað að ræða en að kanna málið nánar.

Fátt er um fína drætti þegar nafnið „Ethel Hague Rea“ er slegið inn á leitarsíðum alnetsins. Fáar síður birtast, litlar upplýsingar og svo gott sem engar myndir utan fyrrnefndrar ljósmyndar af Ethel og setuliðsmönnunum tveimur á Íslandi. Stundum getur borgað sig að leita í hyldýpi alnetsins eftir upplýsingum, svo ég freista þess að grafa örlítið dýpra. Ég finn vísbendingar sem mér þykja álitlegar. Þær leiða mig á slóðir tónlistartímaritsins Radio Mirror. Útgáfa þess hófst í Bandaríkjunum á millistríðsárunum en tímaritið kom út til ársins 1977. Þar finn ég umfjöllun um mína konu.

Ef marka má greinina „Do you remember?“ í febrúar-útgáfu tímaritsins frá árinu 1945, átti Ethel  farsælan feril sem söngkona á millistríðsárunum. Rödd hennar heyrðist á öldum ljósvakans í Bandaríkjunum og hún kom fram á fjölsóttum tónleikum. Svo virðist sem hún hafi horfið af sjónarsviðinu því blaðið spyr „hvað orðið hafi um hana“ (What´s become of her?). Hún er sögð hafa sagt skilið við „skemmtanabransann“ í aðdraganda styrjaldar en viljað þjóna föðurlandinu í stríðinu og helst á þann hátt sem hún kunni best – að koma fram og skemmta. Því hefði hún boðið fram þjónustu sína við að skemmta bandarískum hermönnum.

Í október 1941 lá fyrir að hún yrði send með skipi á óþekktar slóðir. „Hvað má ég hafa mikinn búnað með mér?“ spurði Ethel í aðdraganda sjóferðarinnar. „Nóg er plássið“ var svarið sem hún fékk svo hún tók með sér þrjú koffort og fjórtán handtöskur. Hver hirsla var nýtt til hins ítrasta. Meðal þess sem finna mátti í farangri hennar var útvarp, grammófónn, 250 plötur, straubretti, klappstóll, kommóða full af ullarfatnaði, ýmiskonar spil og gestaþrautir, kreppappír til föndurgerðar fyrir særða hermenn og… söngbækur (song sheets)!

Sjá einnig

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 1. Fundurinn.

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 2. Söngbókin.

Framhald…

Umsögn um sópransöngkonuna Ethel Hague Rea eftir tónleika sem hún hélt á tónlistarhátíð í september árið 1918 (The American Artists Composers And Managers Festival). Umsögnin birtist í tímaritinu Music News.

Heimild: Grenndargralið

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó