NTC

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 2. Söngbókin

Nótnahefti sópransöngkonunnar – 2. Söngbókin

Eftir að hafa lesið skilaboðin frá Ástu, velti ég fyrir mér hvers vegna hún ákvað að leita í viskubrunn Grenndargralsins vegna söngkonu sem söng fyrir gesti í Boston árið 1918. Ég var hins vegar fljótur að átta mig þegar ég skoðaði „neðri“ myndina sem fylgdi skilaboðunum.

Myndin sýnir konu í einkennisbúningi að skenkja kaffi í bolla fyrir tvo hermenn sem sitja við borð. Ekki fer á milli mála þegar rýnt er í myndina að merki Rauða krossins er á vinstri handlegg konunnar sem kynnt er til sögunnar sem Ethel Hague Rea. Í útskýringum sem fylgja með, kemur fram að myndin er tekin í tómstundamiðstöð ameríska Rauða krossins (American Red Cross Recreation Center) á Íslandi árið 1942. Þarna er kominn grunnur sem byggja má á við heimildaleit. Einhvers konar upphafspunktur.

Þar sem ég er vongóður um að nafnið og ljósmyndin muni leiða mig á rétta braut við að finna út hver konan er, legg ég rólegur allar slíkar hugleiðingar til hliðar í bili. Ég hef minna til að reiða mig á þegar kemur að nótnaheftinu og því vil ég reyna að afla mér upplýsinga um það áður en lengra er haldið. Ég veit að það var gefið út í Boston en ég veit ekki hvenær. Ég heyri í Ástu og fæ hana til að lýsa heftinu betur fyrir mér og senda mér myndir af því.

Lýsingin dugar mér til að finna upplýsingar um sambærilegt nótnahefti á netinu frá árinu 1937. Ég get ekki betur séð en heftin tvö séu nákvæmlega eins, af myndunum að dæma. Þannig fæ ég ágætis yfirsýn yfir heftið sem Ásta fann í kassa heima hjá sér – heftið sem svo mikil leynd hvílir yfir.

Vissulega er um að ræða nótnahefti. En þar með er ekki öll sagan sögð. Heftið er aukinheldur söngbók með yfir 150 sígildum sálmum, samtals 144 blaðsíður. Kápan bókarinnar er appelsínugul, með yfirskriftina SING! Á fyrstu blaðsíðu segir að „söngbókin nýtist við ýmis tækifæri, á heimilum og í skólum, á almenningssamkomum, fundum og hátíðum. Með bókinni fylgja nótur fyrir píanó. Bókin er sett saman og ritstýrð af David Stevens og Peter W. Dykema. Martha Powell Setchell ber ábyrgð á útliti bókarinnar.“ Útgefandi er C.C. Birchard & company í Boston. Bókin er prentuð hjá John Worley Company í sömu borg.

Ég hef núna glögga mynd af nótnaheftinu sem Ásta geymir og innihaldi þess. Ég veit að kona að nafni Ethel Hague Rea átti heftið á einhverjum tímapunkti. Stimplar með nafni hennar og ameríska Rauða krossins á forsíðu, bakhlið og á blaðsíðum bera þess glöggt vitni. Ég veit líka að umrædd Ethel var á Íslandi árið 1942 og margt sem bendir til þess að hún hafi verið starfsmaður Rauða krossins. Ég sé að nú er rétt að kynnast konunni betur.

Sjá einnig Nótnahefti sópransöngkonunnar – 1. Fundurinn.

Framhald…

Nótnaheftið sem Ásta fann í dóti Ingimars Eydal, merkt Ethel Hague Rea og ameríska Rauða krossinum. 

Heimild: Grenndargralið

VG

UMMÆLI