beint flug til Færeyja

Notalegur nóvember í Hofi 

Notalegur nóvember í Hofi 

Það verður eitthvað fyrir alla og meira til í Hofi og Samkomuhúsinu á Akureyri í nóvember.

Mánuðurinn byrjar með kvikmyndahátíð í Hofi en NorthernLights – Fantastic Film Festival er hátíð sem leggur áherslu á fantasíu, hrollvekju og vísindaskáldskap og verða um 40 myndir í ýmsum lengdum sýndar á hátíðinni.

Þessa sömu helgi heldur Mannakorn upp á 50 ára afmæli en það er fyrir löngu orðið uppselt á þann viðburð. Frímann Gunnarsson mætir svo daginn eftir afmælistónleikana, eða þann 2. nóvember. Þar mun hann bjóða upp á glæsilega kvöldstund, smekkfulla af hlátri, tónlist og gleði.

Laugardaginn 9. nóvember verða heiðurstónleikar á vegum Tónlistarfélags Akureyrar til minningar um kvikmyndatónskáldið Ennio Morricone þar sem Daniele Basini, Jón Þorsteinn Reynisson og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir flytja tónlist kvikmyndatónskáldsins ástsæla sem gaf spagetti-vestrunum sína einstöku hljóðmynd.

Sunnudaginn 10. nóvember óma norðlenskir tónar um Hof þegar Tónar Norðursins, norðlenskir óperusöngvarar og hljóðfæraleikarar taka fyrir helstu perlur Eyjafjarðar og nágrennis. Söngperlur sem hafa glatt okkur í gegnum árin og fyllt okkur stolti yfir að vera partur af sögu Eyjafjarðar.

Helgin 16. og 17. nóvember er helgi fjölskyldunnar en á laugardeginum mætir Herra Hnetusmjör og verður með fjölskyldutónleika kl. 17. Daginn eftir munum við sjá lífið í gegnum rósrauð gleraugu Edith Piaf þegar Erla Dóra Vogler, kvennakórinn Embla og valinkunnir hljóðfæraleikarar heiðra minningu frönsku goðsagnarinnar sem heillaði heiminn á sínum tíma með sinni einstöku rödd og söngstíl.

Handverks- og hönnunarhátiðin Jóla ilmur er í Hofi þann 24. nóvember en þar verður norðlensk hönnun í fyrirrúmi. Ilmur jólanna mun sannarlega svífa þann dag yfir húsinu og slær tóninn fyrir aðventuna. Sama dag á sér stað einstakur tónlistarviðburður á Íslandi þegar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands mun flytja tónverkið Boléro eftir Ravel í fyrsta sinná Norðurlandi. Á sömu tónleikum verða frumflutt tvö ný íslensk tónverk eftir tónskáldin Daníel Bjarnason og Snorra Sigfús Birgisson, það fyrra samið í minningu kvikmyndatónskáldsins Jóhanns Jóhannssonar. Til að kóróna þessa einstöku upplifun mun Greta Salóme flytja fiðlukonsert númer eitt eftir Shostakovich með hjálp Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Þetta er stórviðburður sem áhugafólk um tónlist má alls ekki láta framhjá sér fara.

Enn einn spennandi og forvitnilegur viðburður verður þann 28. nóvember þegar Hallgrímur Helgason opnar heim bókanna með sextíu kíló af sólskini, kjaftshöggum og sunnudögum í farteskinu. Þar mun hann gæða eigin þríleik lífi á sinn einstaka frásagnarmáta í samvinnu við Borgarleikhúsið.

Fjölbreyttum og spennandi nóvember lýkur svo þegar sönggyðjan GDRN mætir í Hamra ásamt píanósnillingnum Magnúsi Jóhanni. Saman munu þau flytja fyrir okkur nokkur jólaleg lög á seiðmagnaðan hátt og þannig koma öllum í hátíðarskap fyrir aðventuna.

Samhliða þessu öllu halda svo sýningar á Litlu Hryllingsbúðinni áfram allan nóvember með lokasýningu þann 30. nóvember. Leiksýningin hefur fengið frábæra dóma jafnt meðal áhorfenda sem og gagnrýnenda þar sem leikarar fara á algjörlega á kostum í þessum lífseiga og magnaða söngleik.

Hægt er að kaupa miða á alla þessa viðburði á www.mak.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó