NTC

Nokkrar stað­reyndir um jafn­réttis­mál

Nokkrar stað­reyndir um jafn­réttis­mál

Einar A. Brynjólfsson skrifar:

Áhersla ríkisstjórnarinnar á jafnréttismál – nokkrar staðreyndir

  • Desember 2017 – Ríkistjórn VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks kynnir samstarfssáttmála sinn með pompi og prakt. Í honum er áhersla lögð á jafnréttismál.
  • Júní 2019 – Staða ráðuneytisstjóra í Mennta- og menningarmálaráðuneyti auglýst til umsóknar.
  • Nóvember 2019 – Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra, ræður Pál Magnússon, innvígðan og innmúraðan flokkshest, í starfið.
  • Nóvember 2019 – Hafdís Helga Ólafsdóttir, einn umsækjenda um starfið, óskar eftir öllum gögnum málsins og rökstuðningi fyrir ráðningu Páls, enda telur hún fram hjá sér gengið með gróflegum hætti.
  • Janúar 2020 – Eftir ýmsar mótbárur í ráðuneytinu og mikinn eftirrekstur fær Hafdís Helga umbeðin gögn loks í hendur. Meðal gagna er skjal sem inniheldur lista yfir matsþætti sem væntanlega voru hafðir til hliðsjónar þegar mat var lagt á umsækjendur. Svo virðist sem sumir matsþættir séu tvíteknir og öðrum slegið saman. Reyndar vantar yfirskrift á skjalið og ekki er alveg ljóst hvert vægi einstakra matsþátta er. Í umsögn ráðningarnefndar – sem er reyndar undir forystu gamalreynds flokksbróður ráðherrans og Páls – er að finna ónákvæmni og missagnir um Hafdísi Helgu og starfsreynslu hennar.
  • Mars 2020 – Hafdís Helga kærir ráðninguna til Kærunefndar jafnréttismála.
  • Maí 2020 – Kærunefndin kemst að þeirri niðurstöðu að Lilja Alfreðsdóttir hafi brotið gegn 1. málsgrein 26. greinar laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  • Júlí 2020 – Lilja Alfreðsdóttir, Mennta- og menningarmálaráðherra, kærir úrskurð Kærunefndar jafnréttismála til Héraðsdóms Reykjavíkur og fer fram á að hann verði ógiltur.
  • Mars 2021 – Héraðsdómur Reykjavíkur hafnar erindi Lilju um ógildingu úrskurðarins. Hann stendur því óhaggaður
  • Mars 2021 – Lilja Alfreðsdóttir tilkynnir að hún muni áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar

Á sama tíma urðu nokkrar breytingar á þessum mikilvæga málaflokki

  • Janúar 2019 – Jafnréttismál færð frá félagsmála- og jafnréttismálaráðuneytinu, þar sem Ásmundur Einar Daðason ræður ríkjum, til forsætisráðuneytisins, ráðuneytis Katrínar Jakobsdóttur. Það er m.a. gert „í ljósi aukins vægis jafnréttismála almennt“ og „áherslu ríkisstjórnarinnar á málaflokkinn“.
  • Október 2020 (þremur mánuðum eftir að Lilja Alfreðsdóttir kærði úrskurð Kærunefndar jafnréttismála til Héraðsdóms Reykjavíkur) – Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, leggur fram frumvarp um stjórnsýslu jafnréttismála. Þar er m.a. kveðið á um sérþekkingu nefndarfólks í Kærunefnd jafnréttismála á jafnrétti kynjanna og jafnrétti almennt. (Segir það sig ekki sjálft?) Það bitastæðasta er þó – greinilega beint gegn Lilju Alfreðsdóttur – að ef gagnaðili (t.d. einhver ráðherra!) höfðar mál til ógildingar á úrskurði Kærunefndarinnar skuli nefndinni einnig stefnt til varnar, enda þekki enginn „betur á hvaða grunni úrskurður nefndarinnar er byggður en nefndin sjálf og því [sé] rétt að hún sjái um að færa fram málsástæður og lagarök fyrir því af hverju úrskurðurinn sé löglegur“.
  • Desember 2020 – Alþingi samþykkir ofangreint frumvarp Katrínar Jakobsdóttur með 52 atkvæðum. Lilja Alfreðsdóttir er þeirra á meðal.

Margir hafa haft á orði að framganga Lilju Alfreðsdóttur í þessu máli sé henni til lítils sóma, enda felist í henni lítil auðmýkt og „áhersla ríkisstjórnarinnar á málaflokkinn“, þ.e. jafnréttismál, hafi tekið á sig undarlega birtingarmynd. Undirritaður tekur í sama streng.

Höfundur er fyrrverandi Alþingismaður, áhugamaður um jafnréttismál og frambjóðandi í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fara 25. september næstkomandi

VG

UMMÆLI

Sambíó