Vika 17 er alþjóðleg vika heimsmarkmiðanna á bókasöfnum, en hún fer fram dagana 21.-27. apríl. Í tilefni vikunnar verða ýmsir viðburðir tengdir heimsmarkmiðunum á dagskrá Amtsbókasafnsins.
Þriðjudaginn 22. apríl milli kl. 16-18 verða Amtsbókasafnið og Ocean Missions með fjölskyldustrandhreinsun við Sílabás – fjaran rétt norðan við Sandgerðisbót.
Miðvikudaginn 23. apríl frá kl. 16-18 verður endurvinnslulistasmiðja á Amtsbókasafninu þar sem kátir krakkar geta skapað listaverk úr þeim efnivið sem fannst í strandhreinsuninni daginn áður. Báðir viðburðirnir eru einnig hluti af Barnamenningarhátíð.
Alla vikuna verða svo föndurskiptimarkaður og plokkbingó. Bingóspjöld má nálgast á Amtsbókasafninu. Stóri Plokkdagurinn er einmitt sunnudaginn 27. apríl og því upplagt að taka þátt í plokkbingóinu um leið. Rauði krossinn við Eyjafjörð og SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi verða með plokk þann dag frá 10-14.
Amtsbókasafnið hvetur fjölskyldur einnig til þess að taka þátt í samvinnu um heimsmarkmiðin með því að tileinka sér að minnsta kosti þrjú atriði af gátlista sem hefur verið útbúinn fyrir Viku 17.
Vika 17 á uppruna sinn að rekja til Danmerkur en er í dag að finna á öllum Norðurlöndunum. Markmiðið er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum 17 með fjölbreyttum viðburðum og sýna að við getum öll lagt okkar af mörkum.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru 17 talsins með 169 undirmarkmið. Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Óhætt er að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna árið 2030.
