Undirbúningur vegna nýbyggingar við Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) er á fullri ferð um þessar mundir. Gunnar Líndal, verkefnastjóri á sviði rekstrar og klínískrar stoðþjónustu sjúkrahússins, segir í nýjasta fréttabréfi Sjúkrahússins að fyrirhuguð uppbygging muni verða algjör bylting fyrir SAk, til hagsbóta fyrir sjúklinga og starfsfólk.
Í nýbyggingunni er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir lyflækningadeild, skurðlækningadeild og geðþjónustu þ.e.a.s dag-, göngu- og legudeild.
„Þetta er gríðarlega umfangsmikið verkefni og í mörg horn að líta, enda skiptir sköpum að vanda undirbúninginn vel. Mikil áhersla hefur verið lögð á að vinna með starfsfólki og hönnuðum með það að markmiði að nýbyggingin gagnist sem best og sé í takti við nútímakröfur í heilbrigðisþjónustu,“ segir Gunnar Líndal.
Áætlað er að jarðvegsframkvæmdir hefjist sumarið 2026 og má því gera ráð fyrir því að framkvæmdirnar verði boðnar út í haust eða næsta vor.