Menningarfélag Akureyrar setur upp söngleikinn KABARETT

Stórsýning Menningarfélags Akureyrar 2018-2019 verður söngleikurinn: KABARETT.

Öll svið Menningarfélags Akureyrar; Leikfélag Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Viðburðasvið MAk sameinast um að setja upp hinn heimsþekkta söngleik: Kabarett, eftir þá John Kander, Fred Ebb og Joe Masteroff í Samkomuhúsinu í haust. Um er að ræða fyrsta verkefni Mörtu Nordal sem nýs leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar og mun hún sjálf leikstýra sýningunni, en tónlistarstjóri verður Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri MAk og listrænn stjórnandi SN.

Kabarett var frumsýndur á Broadway árið 1966 og hefur síðan þá notið mikilli vinsælda og verið settur upp reglulega á Broadway og víða um heim. Auk þess naut kvikmynd Bob Fosse með Lizu Minnelli í aðalhlutverki, sem var byggð á söngleiknum, fádæma vinsælda þegar hún var frumsýnd árið 1972 og fékk m.a. 8 Óskarsverðlaun.

Söngleikurinn hefur verið settur upp nokkrum sinnum á Íslandi, síðast í Gamla Bíói árið 2005 og veturinn 1986-1987 var hann einmitt settur upp af Leikfélagi Akureyrar í Samkomuhúsinu.

Fyrirhugað er að halda leik-, dans- og söngprufur í maí bæði á Akureyri og í Reykjavík og verða þær auglýstar síðar.

Verkið verður sett á svið í Samkomuhúsinu í haust.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó