Bifreiðastöð Oddeyrar (BSO) á Akureyri ætlar að áfrýja niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli sínu gegn Akureyrarbæ. Dómurinn vísaði málinu frá með vísan til stjórnarskrár og laga um meðferð einkamála, auk þess sem stöðin var dæmd til að greiða 600 þúsund krónur í málskostnað.
Hafdís Skjóldal, stjórnarformaður BSO, lýsir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna og gagnrýnir bæinn fyrir að koma ekki til móts við stöðina. „Við fáum ekki krónu fyrir að hafa verið hér í öll þessi sextíu ár. Lágmarkið væri að þeir borguðu allan lögfræðikostnað fyrir það sem við erum búin að standa í í þessu máli,“ segir hún í viðtali við RÚV.
Fyrr í vetur sagðist Hafdís tilbúin til að hlekkja sig fasta við húsið ef allt færi á versta veg. Hún staðfestir að þau áform standi enn og jafnvel verði fleiri sem muni ganga til liðs við hana.