NTC

Mæðgurnar Agnes og Unnur opna  ljósmyndasýningu saman

Mæðgurnar Agnes og Unnur opna ljósmyndasýningu saman

Mæðgurnar Agnes Skúladóttir og Unnur Anna Árnadóttir opnuðu í gær sína fyrstu ljósmyndasýningu saman. Þær eru báðar atvinnuljósmyndarar. Sýningin ber nafnið „Frá móður“ og er í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu.

Sýningin verður opin helgina 19.-20. mars og helgina 26.-27. mars frá kl 14-17 og á öðrum tímum eftir samkomulagi. 

„Það er ýmislegt sem við fáum frá mæðrum okkar sem við tökum með okkur út í lífið. Ljósmyndaáhugi okkar kemur frá móður til móður, en sýninguna tileinkum við einmitt Helgu Haraldsdóttir, móður og ömmu. Helga er mjög fær áhugaljósmyndari til margra ára og fáum við okkar „ljósmyndagen“ frá henni. Sýningaropnunin var á afmælisdegi hennar,“ segir í tilkynningu.

Á sýningunni eru nokkrar af þeirra fallegustu myndum af mæðrum og nýfæddum börnum þeirra. Við hverja mynd er stuttur texti þar sem mæðurnar segja frá því hvað þær fengu frá sinni móður.

Unnur Anna er 26 ára gömul, fædd og uppalin á Akureyri. Hún er gift Charlie frá Bandaríkjunum  eiga þau tvær stelpur, Agnesi Emmu 4 ára og Ellen Rose, 6 mánaða. 

Unnur er hálfnuð með BFA nám í ljósmyndun í Bandaríkjunum en er núna staðsett á Íslandi. Hennar helsta áhugasvið í ljósmyndun er að taka lífstíls myndir af fjölskyldum, pörum, verðandi foreldrum, og börnum sem og í brúðkaupum. Hún hefur mikla ástríðu fyrir því að fanga á myndum þá skilyrðislausu ást sem foreldrar hafa gagnvart barninu sínu og þau órjúfanlegu tengsl sem fjölskyldur hafa.

Ásamt því að vinna við ljósmyndun starfar Unnur einnig sem danskennari hjá Dansstúdíó Alice og sem sýningarstjóri hjá Menningarfélagi Akureyrar

Agnes Skúla er tölvulífeindafræðingur og jósmyndari á Akureyri. Hún hefur starfað sem atvinnuljósmyndari í 10 ár. Agnes er gift, á 3 börn og 7 barnabörn. Agnes hefur farið á fjölda námskeiða í ungbarna- og barnaljósmyndun bæði hérlendis og erlendis og hefur einnig sótt fjölda af netnámskeiðum af ýmsu tagi hjá mörgum góðum ljósmyndurum og hættir aldrei að læra. Hún hefur einlægan áhuga á ljósmyndun og myndar verðandi mæður, nýfædd börn, fermingar-börn, nýstúdenta, fjölskyldur og börn á öllum aldri. Agnes elskar að mynda í náttúrulegri birtu og myndar bæði úti og inni. Agnes opnaði ljósmyndastúdíó í október 2017 sem hún og Unnur nota í sameiningu. Stúdíóið er sérhannað til að ljósmynda nýbura og börn. Agnes er félagi í Ljósmyndarafélagi íslands.

Sambíó

UMMÆLI