Við birtum hér pistil eftir Kristínu S. Bjarnadóttir sem var í dag kosin Manneskja ársins 2024 á Kaffinu. Pistillinn var fyrst birtur á Facebook-síðu Kristínar í tilefni áramótanna.
Litið um öxl. Í tilefni áramóta.
Það var snemma í júní sem ég sá fyrstu hjálparbeiðnina. Ja hérna, get ég bara komið framlagi beint til þessarar ungu konu, sem var ein á hrakningum með tvö ung börn, og maðurinn hennar týndur? Ég millifærði, sendi baráttukveðjur og hélt tengslum. Fljótlega fékk ég beiðni frá ungum fjölskylduföður. Ahh.. ég gæti nú varla bætt annarri fjölskyldu við. Hummaði þetta fram af mér í vikur. Alþjóðlegar hjálparstofnanir hlytu nú að fara að koma þarna sterkar inn. Meiningin var að reyna að halda ungu móðurinni á floti þar til formlegt hjálparstarf tæki við. En ungi fjölskyldufarðinn fór ekki úr huga mér. Hvað ef hann væri í miklum vandræðum, ég yrði nú að athuga með hann. Sá er stjúpsonur minn í dag.
Og áfram komu beiðnir. Ég get ekki styrkt fleiri, sagði ég, en hinkraðu aðeins, ég ætla að finna einhverja vinkonu mína sem er til í að sjá um þig. Þetta gerði ég nokkrum sinnum. Allt staðfest með myndsímtölum. Ég skrifaði og skrifaði á facebook síðuna mína. Ég hvatti fólk til að leggja inn á gofundme reikninga hjá stríðshrjáðu fólki en ekkert gerðist. Ég kenndi sumarfríum um. En sumarfríin liðu og lítið gerðist. Var þetta dofi því ástandið var svo hörmulegt? Eða hvað var þetta eiginlega? Ég hugsaði með mér að þetta með gofundme mætti að minnsta kosti ekki stoppa framlög af. Bauð upp á að leggja mætti inn hjá mér og ég kæmi því áfram. Þá kom aðeins hreyfing. Það komu fleiri beiðnir að utan. Ég skrifaði meira og meira. Framlög jukust aðeins. Fólk var myrt, börn og fullorðin voru sprengd og kramin til örkumlunar eða dauða undir rústum. Mikið um sýkingar í hitanum í sumar, ofþornun, gula. Barn í hópnum mínum dó vegna sýkingar. Þvílíkur óþarfi, þvílík sorg, þvílík reiði. Fólk stöðugt rekið af sínum stað, skotið á eftir því úr þyrlum, svo allar eigur urðu stöðugt eftir. Verð var komið upp úr upp öllu.
Mikil þörf og eftirspurn fyrir sálgæslu. Ég var með fólk í umsátri í símanum. Það vandist illa. Þvílík og önnur eins læti og grimmd. Eitt skiptið endaði með dauða yngri bróður. Í það skipti voru það skriðdrekar sem umkringdu tjaldbúðirnar, „örugga svæðið“, og skutu látlaust yfir og allt um kring. Hann fékk skot í gegnum höfuðið. Blæddi út síðar um nóttina. Þvílíkur óþarfi, þvílík sorg, þvílík reiði.
Svo kom haustið ógnandi með kólnandi veðri og gríðarlegum rigningum. Öll höfðu flúið að heiman í ofboði í sumarfötum. Öll vatnaði vetrarföt og hlý teppi. Herinn varðist innflutningi. Fleiri tonn af fatnaði biðu við landamærin, bílum ekki hleypt inn. Hjálparstarfsfólk og fjölmiðlafólk hafði verið drepið frá því í sumar. Stríðsglæpum fjölgaði stöðugt. Verðið hækkaði upp í hæstu hæðir. Herinn dró stórkostlega úr innflutningi matvæla. Áður búinn að ryðja ólífutrjánum þeirra um koll, til að koma í veg fyrir uppskeru. Og reka þau sem flest úr húsum sínum niður að sjó, þar sem kaldast er og vitað var að flæddi yfir neðstu tjöld. Eins og raungerðist. Þörfin fyrir stuðning jókst, það fjölgaði vinkonum sem voru til í að hjálpa og þörfin úti var orðin gríðarleg. Mikil þörf fyrir sálgæslu. Ég útvegaði mér aðstoð túlks fyrir myndsímtölin. Ég gerði samning við Plastiðjuna Bjarg / Iðjulund og hóf kertasölu, fékk frábæra sálfboðaliða sem liðsauka.
Og veturinn. Þvílík hryllings martröð. Kuldi, bleyta, sprengingar, dráp, fangelsanir, pyntingar, sjúkrahúsin eyðilögð, heilbrigðisstarfsfólk afklætt og handtekið. Sonur yfirlæknis var myrtur, því yfirlæknirinn neitaði að yfirgefa sjúklinga sína. Þau svífast einskis þessi herbörn sem myrða og nýta fjármagn vesturvelda og gervigreind til að drepa sem allra flest. Líka börnin, ef þau lifðu af þegar húsin voru sprengd. Fullkomnir drónar sendir inn í íbúðablokkir til að klára verkið, skjóta og sprengja, jafnvel heilar fjölskyldur. Meiri kertasala til að afla fjár, til að geta stutt fleiri. Ég óskaði eftir listmunum og handverki frá velviljuðum sem brugðust við og gáfu, sjálfboðaliðar seldu. Jólagjafir okkar fjölskyldunnar í ár fóru til stríðshrjáðra, að tillögu elsku barna minna. Þvílík hamingja að geta gefið.
Og svo kuldinn núna. Fimm nýfædd börn eru dáin úr kulda í vikunni. Framundan slæm veðurspá. Gefin hefur verið út viðvörun, herinn ætlar að stórauka sóknina og senda meira lið inn. Ég gæti rakið svo miklu fleira hér. En þið vitið þetta með mér. Það er ekki það sem er að, að við vitum ekki. Við vitum.
Rúmlega hálft ár er liðið frá því að ég ætlaði að hjálpa ungri móður að brúa bilið þar til hjálparstofnanir tækju við. Þökk sé vinkonum mínum sem gengu með mér í lið að ég gat gert meira. Þökk sé ykkur sem lögðuð inn á reikninginn eða greidduð beint um gofundme reikninga. Um 300 manns hafa nú fengið styrki frá hópnum. Yfirgnæfandi meirihluti ungir foreldrar og börn. Mörg þeirra hafa verið styrkt reglulega síðan í sumar en nú frá hausti og í vetur höfum við getað aukið við staka styrki til þeirra sem eru mjög illa stödd. Tvö börn í hópnum eru fötluð og einn fullorðinn. Fjölskyldur í hópnum hafa misst alls sjö börn. Líkamsleyfar tveggja barna eru týndar. Tvö börn hafa fæðst og vegnar vel miðað við aðstæður. Ég fékk íslenska ljósmóður til liðs við okkur til ráðgjafar því hreinlega allt hefði getað farið úrskeiðis. Von er á fimm börnum á næstu tveimur mánuðum. Fólk í hópnum hefur slasast. Öll hafa misst ættingja, vini og nágranna. Sum þeirra mörg. Öll hafa misst heimili sín og aleigu. Þau hafa öll misst og misst og er enn enginn griður gefinn.
Ég kom kærleiksarmbandaverkefninu af stað í haust. Þar fengu ungar stúlkur í hópnum iðju og gátu gleymt sér um stund við að búa til armbönd sem fólk á Íslandi kaupir. Þær gleðja önnur stríðshrjáð börn með því að gefa þau áfram til ungra barna í nágrenninu. Og þær gleðjast að geta gefið af sér.
Ég hef unnið að því að koma fjölskylduföður á framfæri með myndvinnslu sína svo að sjálfbærni eigi sér þar stað. Sá missti annað augað eftir sprengingu og þarf sárlega að komast í aðgerð um leið og landamæri opnast. Tvö börn þurfa líka að komast í aðgerð og meðferð eins fljótt og hægt er.
Við Biggi styrktum ungan frumkvöðul og eldhuga til að halda ásamt systur sinni og fleirum barnaskemmtun einn morguninn. Fjölmörg börn skemmtu sér þar afar vel og spyrja látlaust eftir því hvenær næsta skemmtun verði. Ekki hefur tekist að safna fyrir henni ennþá.
Við höfum styrkt með fjárframlögum vatnsverkefni, þar sem flytja þarf vatn á vatnslausan stað þar sem mörg búa, og vonandi getum við styrkt verkefni þar sem kennarar taka sig saman um kennslu, við ótrúlegar aðstæður.
Tíminn líður, ástandið versnar. Fólk hefur haft áhyggjur af mér. Hvernig líður mér. Mér líður ágætlega. Af því að ég hef geta orðið að liði. Þá liði mér fyrst illa ef ég hefði ekkert gert, fyrst ég gat það. Ekki hafa áhyggjur af mér. Hafið áhyggjur af börnunum og unga vopnlausa fólkinu í flóttamannabúðum sem er verið að myrða alla daga og nætur. Hafið áhyggjur af því að einn einasti guðsvolaði her geti fengið að ganga fram með þessum hryllilega hætti í allan þennan tíma. Hve mikið er að hjá okkur mannfólkinu? Gerum allt sem á okkar valdi stendur til að hafa áhrif til góðs. Hvar og hvenær sem okkur dettur það í hug.
Og af hverju er ég að fara yfir þetta allt saman hér? Það er vegna þess að mig langar svo mjög að þið vitið hve mikið er hægt að hjálpa héðan að heiman. Því mig langar að fá fleiri til að hjálpa. Annað hvort með því að koma í hópinn með okkur eða með framlögum. Hugsið ykkur hvað þessi fámenni hópur í kringum mig hefur þó áorkað miklu? Þrátt fyrir brjálæðislega hátt verð, þrátt fyrir þóknanir sem þarf að greiða á hinum endanum, þá höfum við með ykkar aðstoð náð að styðja meira við en ég held að mörg geri sér grein fyrir. Þetta hefur kostað milljónir.
Og ekki má vanmeta sálræna stuðninginn. Því það skiptir öllu fyrir fólk við þessar aðstæður að hafa einhvern glugga og líflínu út fyrir óæðisverkin sem þau lifa við. Það að einhver svari vinabeiðni, eftir 100 hafnanir, er afar mikils virði get ég sagt ykkur. Eldri hjón hafa komið sterk inn og hjálpað mér mikið, auk eldri konu sem hefur gefið andvirði nokkurra tjalda eftir að fólk var hrakið úr fyrri tjöldum. Flest gefenda koma úr röðum eldri borgara og öryrkja. Hjartans þakkir öll sem hafa gefið, unnið sjálfboðaliðastarf eða stutt með deilingum eða með því að vera til staðar í samtöl við stríðshrjáð fólk, hvert með sínum hætti. Þið vitið hver þið eruð og hafið öll látið muna um ykkur. Stöndum öll saman gegn þj.morði, það er skylda okkar.
Og vinkonur mínar og vinir þarna úti í þj. morði, systur mínar og bræður, dætur og synir. Yndislegra, einlægara og hugrakkara fólki hef ég ekki á ævi minni kynnst. Þið eigið allt það besta í heiminum skilið og það almikilvægasta er að herinn verði stöðvaður af strax og að mikil hjálp berist hratt til ykkar. Svo þarf að taka næstu skref þar á eftir, eitt í einu, eftir góða hvíld. Ég elska ykkur öll og við sjáumst þegar þessu verður lokið
Framlög ykkar sem eruð aflögufær: 130668-5189, 162 26 13668
Á Facebook-síðu Kristínar er hægt að fræðast nánar um það starf sem hún sinnir en deilir hún reglulega frá atburðum á Gaza og hvernig hægt er að veita fólkinu á þar hjálparhönd.
UMMÆLI