KA/Þór áfram á sigurbraut

Aldís Ásta Heimisdóttir stjórnaði sóknarleik KA/Þór glæsilega í leiknum. Mynd: ka.is/Þórir Tryggva.

KA/Þór hafa farið vel af stað í Grill66 deild kvenna í handbolta í vetur. Liðið mætti Fram U í Reykjavík síðasta laugardag eftir að hafa sigrað fyrstu tvo leiki sína í deildinni. Liðið ferðaðist suður án sterkra leikmanna eins og fyrirliðans Mörthu Harmannsdóttur, Katrínar Vilhjálmsdóttur og Köru Rúnar Árnadóttur sem allar eru frá vegna meiðsla. Una Kara Vídalín og Katrín Óladóttir komu inn í hópinn, Katrín í sínum fyrsta meistaraflokksleik.

Það var því mikil ábyrgð á ungu leikmönnum liðsins en það er óhætt að segja að þær hafi höndlað þá ábyrgð. KA/Þór komst í 4-0 í upphafi leiks og hélt forrystu út leikinn sem varð aldrei spennandi. Vörn og markvarsla liðsins var góð og staðan í hálfleik 15-10 KA/Þór í vil.

Forskotið hélt áfram að stækka í síðari hálfleik og fór að lokum svo að liðið vann öruggan 30-18 sigur.  Ásdís Sigurðardóttir var tekin úr umferð í leiknum en það breytti litlu í gangi leiksins. Aldís Ásta Heimisdóttir og Steinunn Guðjónsdóttir voru magnaðar í sóknarleiknum ásamt því að Ásdís Guðmundsdóttir var sterk á línunni og í hraðaupphlaupum.

KA/Þór hafa því unnið fyrstu þrjá leiki sína í deildinni og eru á toppi deildarinnar með fullt hús stiga ásamt HK. Næsta sunnudag mætir liði ÍR á útivelli en ÍR-ingar tefla fram sterku í liði í vetur og má því búast við hörkuviðureign.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó