Dómstóll HSÍ hefur staðfest sigur KA/Þór gegn Stjörninni í Olísdeild kvenna í handbolta. Liðin mættust 13. febrúar síðastliðinn og vann KA/Þór 27-26 sigur. Eftir leik kom hinsvegar í ljós að mistök hefðu orðið á ritaraborði og aukamarki hafði verið bætt á KA/Þór. Þetta kemur fram á vef KA.
Sjá einnig: Stjarnan vill fá úrslitum gegn KA/Þór breytt
Dómarar leiksins undirrituðu leikskýrsluna að honum loknum og staðfestu þar með lokatölurnar 26-27. Stjarnan, sem var heimalið á leiknum og bar ábyrgð á framkvæmd leiksins, kærði að lokum framkvæmdina til HSÍ og lagði fram tvær kröfur.
A) Að markið skyldi niðurfalla og leikurinn færi því 26-26
B) Að leikurinn yrði spilaður að nýju
Dómstóll HSÍ bar upp niðurstöðu sína í málinu í dag og hafnaði þar báðum kröfum Stjörnunnar og standa því úrslit leiksins, 26-27 KA/Þór í vil. Hér er hægt að lesa niðurstöðu dómstóls HSÍ í málinu.
KA/Þór eru því áfram á toppi Olísdeildarinnar með 16 stig líkt og Fram.
„Leikmenn og þjálfarar haga leik sínum útfrá þeirri stöðu sem er uppi hverju sinni og hafði því staðan sem ritaraborð leiksins sýndi klárlega áhrif á hvernig leikurinn spilaðist. Mistök geta átt sér stað á öllum sviðum leiksins, mark dæmt sem er ekki löglegt og öfugt. Mistök eru hluti af leiknum hvort sem er hjá leikmönnum, þjálfurum, dómurum eða starfsmönnum leiksins. KA/Þór fagnar því að þessu máli sé lokið og að stigin tvö séu staðfest en þetta mál var leiðinlegt fyrir alla aðila sem komu að því,“ segir á ka.is.
Mynd: Ka.is/Egill Bjarni
UMMÆLI