Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar
Nú eru jólin að koma sem er erfiður árstími fyrir marga. Það eru margir búnir að missa ástvini sína, bæði núna nýlega og í fortíðinni.
Það skiptir ekki máli hversu langt er frá ástvina missi. Minningar og söknuður koma alltaf upp á þessum tíma og margir eiga erfitt með bæði jól og áramót. Enda eru svo margar góðar minningar og stutt í sorgina.
Þá er gott að vera meðvituð/meðvitaður um hugsanir sínar og einblína á góðu tímana með söknuðinum og heiðra minningu þeirra sem farnir eru með kærleiksríkum jólum og með þeim ástvinum sem eru ennþá hér, í stað þess að hugsa of mikið um þá sem farnir eru.
Að finna fyrir þakklæti að t.d. annað foreldri manns sé ennþá hér eða systir eða bróðir og gleðjast saman og vita það að sá sem er farin verður ávallt í hjarta manns.
Þannig hugsa ég þetta í dag en síðustu jól voru sársaukafull fyrir mig vegna þess að ég missti móðir mína rétt fyrir jólin. Ég var einn þau jól, einangraði mig frá fjölskyldu og vinum. Það voru mín viðbrögð við missinum. Ég mæli með að reyna að forðast þau viðbrögð… þannig hegðun.
En nú er ég komin á annan stað í lífinu og ég vil segja að það sem ég gerði í fyrra á jólunum var ekki gott fyrir neinn. Hvorki mig né fjölskylduna mína. Þess vegna vildi ég skrifa þennan stutta jólapistil til umhugsunar fyrir þá sem eru í þeim sporum eins og ég var í fyrra.
Við erum félagsverur og þurfum ást, öryggi og væntumþykju frá hvort öðru. Ekki einangra þig. Það gerir bara allt verra fyrir alla, ekki bara þig. Vertu með ástvinum um jólin og þá kemur batinn hægt og rólega frá missinum. Þá byrjar þú að heilast í kærleikanum með fjölskyldunni.
Það er mín upplifun að tíminn vinnur með manni og þetta verður auðveldara. Ég get lofað því fyrir þig sem þetta lest. Það er mín reynsla síðasta árið. Þetta verður betra og sorgin verður öðruvísi ef þú ert með ástvinum um hátíðarnar.
Megi almættið blessa þig og þína sem þetta lest og heila þig í sorg þinni. Og heiðraðu minningu þeirra sem farnir eru með gleðilegum jólum með þeim ástvinum sem eru ennþá með þér. Skapaðu góðar og fallegar minningar með þeim sem endast út lífið. Sá sem farin er myndi vilja það af öllu hjarta fyrir þig og þína.
Gleðilega hátíð.
Gísli Hvanndal Jakobsson
UMMÆLI