Meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings samþykkti á fundi nýverið að úthluta Íslandsþara ehf. lóð fyrir starfsemi fyrirtækisins. Verður starfsemin í Búðarfjöru 1, á hafnarsvæðinu á Húsavík, mbl.is greindi fyrst frá.
„Ef áætlanir fyrirtækisins ganga eftir koma hér 20-30 ný störf inn í atvinnulífið á næstu árum. Mér finnst það stórt skref fyrir Norðurþing að fá þau atvinnutækifæri hingað,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, í samtali við Morgunblaðið.
Strax og starfsemin hefst gerir fyrirtækið ráð fyrir tæplega 15 stöðugildum en gert er ráð fyrir 19 störfum í landi og 10 sjávartengdum störfum við þarasöfnunina.
Uppfært
Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþinng óskaði eftir því að leiðrétting varðandi fréttina væri birt.
Katrín segir að ,,áætlanir fyrirtækisins hafi breyst frá því sem var þegar sótt var um lóð síðast. Búið er að snúa frá vacuum-þurrkun og verður hráefnið þurrkað í beltaþurrkara. Fyrirhuguð starfsemi er hafnsækin og fellur vel að skipulagi lóðarinnar að Búðarfjöru.“
Katrín tekur einnig fram að ,,fyrirtækið mun þurfa að uppfylla reglugerðir um hollustuhætti, mengunarvarnir, hávaða og lykt og það eru opinber fyrirtæki sem fylgja þeim reglugerðum eftir s.s Heilbrigðiseftirlitið“
UMMÆLI