Frá og með þriðjudeginum 16. mars næsktkomandi munu leiðakerfi Air Iceland Connect og Icelandair sameinast. Sölu- og markaðsstarf sameinast einnig undir vörumerki Icelandair. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Í tilkynningunni segir að vörur og þjónusta Icelandair, innanlands sem utan, verði þannig samræmdar og aðgengilegar á einum stað á www.icelandair.is.
„Áfangastaðir um allt land verða sýnilegri á heimasíðu Icelandair í gegnum eina leit, einn farmiða og tengingu við leiðakerfið í Evrópu og Norður-Ameríku. Þá mun tenging við Icelandair vörumerkið lyfta innlendum áfangastöðum upp alþjóðlega en vörumerki Icelandair er vel þekkt á lykilmörkuðum félagsins eftir áratuga uppbyggingu og fjárfestingu í sölu- og markaðsmálum. Nú stendur yfir vinna við endurmat á vörum og þjónustu í innanlandsflugi. Eftir yfirfærsluna þann 16. mars næstkomandi verður sölu Flugfrelsis hætt og breytingar verða á skilmálum og þjónustu Flugkappa og Flugfélaga. Skilmálar útistandandi ferðainneigna sem keyptar eru fyrir yfirfærsluna eru óbreyttir en sú breyting verður á að þjónusta við viðskiptavini fer fram í gegnum þjónustuver Icelandair. Auk þess er unnið að þróun nýrra lausna sem kynntar verða á vormánuðum,“ segir í fréttatilkynningu.
„Til lengri tíma litið, þar sem framboð innanlandsflugs verður nú áberandi í bókunarvélum Icelandair, standa vonir okkar til að með öflugri markaðssetningu og tengingu við leiðakerfi okkar í Evrópu og Norður-Ameríku takist okkur jafnframt að fjölga ferðamönnum í innanlandsflugi. Það myndi styrkja lykiláfangastaði okkar um allt land og skila sér til viðskiptavina okkar í aukinni tíðni og betri þjónustu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í fréttatilkynningu.