NTC

Hikstahvíslarinn – Þú þarft aldrei að hiksta meira

Ingibjörg Bergmann skrifar:

Ég er þeim eiginleikum gædd að ég get sigrað hiksta á nokkrum sekúndum eftir að hann birtist. Enginn sykurmoli, engar misheppnaðar bregðutilraunir, engin skrítin húsráð heldur bara þú. Það besta við þetta er að það geta þetta allir. Um leið og þú byrjar að hiksta þá gerirðu eftirfarandi og hikstinn hverfur.
Ég lofa. Ég er meira að segja stundum kallaður hikstahvíslarinn í mínum vinahóp. Eða ég mun verða kölluð það í framhaldinu af þessum pistli, vinir mínir hafa ekki ennþá reynst tilbúnir til þess að kalla mig það.

Ég reikna fastlega með því að allir kannist við hiksta hvort sem það er venjulegur hiksti, random hiksti, ofáts-hiksti eða fyllibyttuhiksti og við eigum það eflaust öll sameiginlegt að vilja losna við hann strax. Það sem þú gerir er:

Þegar hikstinn byrjar þá þarftu að draga djúpt inn andann og halda honum niðri í þér.
– Svo þarftu að kyngja þrisvar sinnum.
– 3x.
– Síðasta skiptið á að vera erfitt, ef það var ekki erfitt þá þarftu mögulega að kyngja einu sinni enn.
– Það sem þú mátt ALLS EKKI gera er að hleypa neinu lofti út á meðan þessu stendur. Þú VERÐUR að halda andanum niðri allan tímann á meðan þú kyngir.

Svo er það fyllibyttuhikstinn. Hann er aðeins erfiðari að eiga við. Nú svindlar maður yfirleitt því maður er skíthæll í glasi. En það eru sjálfsögðu til ráð við því.

– Dragðu djúpt andann og haltu honum niðri í þér.
– Kyngdu eins oft og þú getur á meðan.
– Þegar síðasta kyngingin er orðin það erfið að þér finnst þú fara fljótlega að kafna (samt ekki, maður er bara alltaf svo dramatískur í glasi) þá ætti þetta að vera komið.

Ef það væri hægt að sækja um einkaleyfi á þessu ráði þá væri ég búin að því. Og ef þú telur þig hafa heyrt þetta áður þá skjátlast þér, því ég stal þessu ráði frá erlendri vinkonu minni í París, hef eignað mér það síðan og reynt að koma mér upp nafni sem hikstahvíslarinn á næturlífinu víðsvegar um landið. Vinir og vandamenn hafa verið notaðir óspart sem tilraunadýr síðastliðin þrjú ár og alltaf með hundrað prósent árangurstíðni.
Verði ykkur að góðu.

Sambíó

UMMÆLI