Framsókn

„Hey sjáið mig, ég er hneykslaður”

Óðinn Svan skrifar

Óðinn Svan skrifar

Yfir 90% Íslendinga eiga Facebook og er notkun okkar eitt af fjölmörgu tilgangslausu heimsmetum sem við eigum. Sú staðreynd að svona stór hluti fólks eigi Facebook segir okkur að jafn stór hluti landsmanna eiga sinn eigin fjölmiðil, því Facebook er ekkert annað en okkar persónulegi fjölmiðill.

Þó svo að ekki allir virðist átta sig á því sbr. Salvöru Kristjönu Gissurardóttir lektor í upplýsingatækni en eins og frægt var í síðustu viku velti hún því fyrir sér á fjölmiðlinum sínum, Facebook, hvort að Steinar Bragi, rithöfundur væri ofbeldismaður. Það var á endanum rakið og Salvör kenndi fjölmiðlum um að vega að æru Steinars og fjalla um málið. Það sýnir að meira að segja fólk sem kennir upplýsingatækni áttar sig ekki á því að með því að segja eitthvað við 1300 vini þína á Facebook ertu að segja öllum það. Það mál eitt og sér er hins vegar efni í annan pistil.

Það sem hefur fengið mig til að hugsa er það hvernig fólk notar þennan nýja fjölmiðil sinn. Svo virðist vera sem ein stór keppni sé í gangi. Í stuttu máli gengur þessi leikur út á það að finna málefni, hneykslast yfir þeim og fá hrós. Hrósið kemur svo frá öðrum þátttakendum í leiknum í formi læka og innihaldslausra skilaboða á borð við heyr heyr.” og „vel mælt gamli :p”

Gott dæmi er stóra eggjamálið sem sprakk upp í byrjun vikunnar og allir, nema kannski Vigdís Hauskdóttir, geta verið sammála um að þar var á ferðinni ljótt mál og ekki til eftirbreytni. Strax og þátturinn fór í loftið þá sprungu hreinlega fjölmiðlar fólksins. Ég held að ég hafi lesið 10 þúsund stöðuuppfæslur hjá fólki á Facebook og Twitter sem sá sig knúið til að láta alla vita að það ætlaði sko ekki að kaupa egg frá þessum köllum aftur. Að launum uppskar þetta góða og upplýsta fólk læk og ,,heyr heyr.”

Neytendamál er ekki það eina sem fólk þyrstir í að hneykslast yfir heldur tekur fólk sér oft á tíðum það leyfi að hneykslast fyrir hönd annarra. Dæmi um slíkt mál er þegar hneykslaða og vel upplýsta fólkið varð brjálað við íþróttafélagið FH fyrir að gefa stelpum minni verðlaunagripi en strákum. Þegar málið var skoðað kom í ljós að báðir þessir verðlaunagripir voru gjafir til félagsins, annars vegar frá foreldrum drengja sem höfðu látist og hins vegar frá fyrstu Íslandmeisturum FH í kvennaknattspyrnu.

Afhverju getum við ekki bara tekið afstöðu gegn fyrirtækjum sem við kærum okkur ekki um með því að hætta viðskiptum? Afhverju sjá svona margir sig knúna til að segja öllum frá því hvað það er gott og vel upplýst og hneykslað fólk?

En að nenna þessu!

VG

UMMÆLI