Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir fékk á dögunum styrk frá Norðurorku fyrir verkefnið Af hverju er ég femínisti – fræðslufyrirlestur um jafnrétti fyrir grunn- og framhaldsskólanema. Hún segir að það sé þörf á slíkri fræðslu fyrir krakka á Íslandi.
„Litla frænka mín spurði mig afhverju ég væri femínisti af því að hún hélt að það væri manneskja sem hataði konur. Það fékk mig til að hugsa hvort að fáfræðin væri svona mikil hjá krökkum hennar á aldri, semsagt krökkum á unglingastigi í grunnskólum,“ segir Stefanía í spjalli við Kaffið.
Sjá einnig: Norðurorka veitti 46 styrki til samfélagsverkefna
Stefanía tók Kynjafræði áfanga í Menntaskólanum á Akureyri og útskrifaðist með 10 í einkunn. Hún ákvað í kjölfarið að búa til sinn eigin fyrirlestur og bjóða upp á hann í grunnskólum á Akureyri. Hún telur að það megi gera betur þegar kemur að kynjafræðslu fyrir ungt fólk.
„Ég var að ræða þessi mál við vinkonu móður minnar sem er kennari í Oddeyrarskóla og hún bað mig um að koma og ræða við krakkana þar. Í kjölfarið fór ég einnig í minn gamla skóla, Hrafnagilsskóla og síðan spurðist þetta út víðar.“
Hún segir að það sé ótrúlega skemmtilegt að sjá hversu mikinn áhuga krakkarnir hafi á feminískum málefnum.
„Það kemur mér samt á óvart hversu lítið þau vita um málefnin sem ég fjalla um eins og stöðu kynjanna á Íslandi, bleika skattinn, fóstureyðingarlög og allskonar.“
„Stuðningurinn sem ég hef fengið við þetta allt saman hefur verið magnaður. Þetta hefur verið ótrúlega skemmtilegt en mér finnst þetta einnig mjög mikilvægt. Kynjafræðsla og fræðsla um stöðu kynjanna er ekki næg í grunnskólum og samkvæmt lögum eiga krakkar á öllum aldri að vera frædd um þessi málefni í skólanum en það er einfaldlega ekki gert. Ég ákvað því bara að gera það.“
Stefanía segir að fyrirlesturinn sé einungis byrjunin og að hún sé með fleiri verkefni sem tengjast kynjafræðslu í bígerð.
UMMÆLI