Frábær mæting á árshátíð VMALjósmynd: VMA / Hilmar Friðjónsson

Frábær mæting á árshátíð VMA

Þessi grein er skrifuð af Guðmari Gísla Þrastarsyni, nemanda í Verkmenntaskólanum á Akureyri

Árshátíð VMA var haldin með pompi og prakt í Íþróttahöllinni föstudagskvöldið 21. mars síðastliðið. Veislustjórn var í höndum Audda og Steinda og var mikil stemning meðal viðstaddra. Nemendafélag VMA sér um skipulag árshátíðarinnar og var að þessu sinni Casino þema. Salurinn var skreyttur hátt og lágt í þeim stíl og nemendur og starfsfólk klæddust í takt við þemað. 

Ríflega þrjú hundruð manns voru viðstaddir, sem er ívið meira en síðustu ár og hófst dagskrá kvöldsins kl. 19. Sigríður Huld skólameistari hélt stutta tölu, nemendafélag skólans sýndi árshátíðarmyndband sitt og Birna Karen Sveinsdóttir, sigurvegari söngkeppni VMA í fyrra, flutti sigurlag sitt með undirleik frá Hljómsveitinni Sót, sem skipuð er nemendum úr VMA. Síðar um kvöldið söng Aron Freyr Ívarsson meðlimur Sót þrjú lög, einnig með undirleik hljómsveitarinnar.  

Þar að auki hélt Hulda Þórey Halldórsdóttir, formaður nemendafélags VMA ræðu en auk skólameistara flytur formaður nemendafélagsins stutta ræðu ár hvert. 

Eftir að formlegri dagskrá lauk streymdu nemendur víðsvegar að á árshátíðarballið en það voru veislustjórarnir sem hófu fjörið kl. 23. Aðrir tónlistarmenn sem stigu á stokk voru Séra Bjössi, Aron Can, Erpur & Blaffi og DJ Gugga. Rífandi stemning var fram eftir nóttu og skemmtu gestir sér konunglega. 

Erpur og Blaffi stifu á stokk. Ljósmynd: VMA / Árni Már Árnason

Sólveig Birna Elísabetardóttir, viðburðarstjóri VMA, starfar náið með nemendafélagi skólans. Hún segir árshátíðina í heild sinni hafa gengið ótrúlega vel, enda hafi nemendafélagið byrjað undirbúning síðasta haust og allir hafi sýnt mikinn metnað í að halda glæsilega og eftirminnilega árshátíð.

Aðspurð hvernig stemningin var segir Sólveig: „Stemningin var virkilega góð og það var gaman að heyra nemendur ræða spenntir um artistana og veislustjórana á göngunum í aðdraganda hátíðarinnar. Stemningin á ballinu var einnig frábær og heilt yfir virðist sem allir hafi skemmt sér mjög vel.“

Þemað ekki úr lausu lofti gripið

Eins og komið hefur fram var svokallað ‚casino‘ þema á árshátíðinni. Sólveig segir að nemendafélagið hafi sjálft tekið ákvörðun um þemað og að á fundi nemendafélagsins hafi verið farið yfir hvaða þema höfðu verið síðustu tvö ár. Niðurstaðan þess fundar var að hafa casino þema þetta árið. Hún bætir einnig við hvað skreytinganefndin á mikið hrós skilið fyrir sína vinnu, en hún kom að útfærslu og hönnun á allri skreytingu sem prýddi anddyrið og veislusalinn.

„En vá hvað það var gaman að sjá skreytinganefndina leggja sig svona mikið fram, öll smáatriði voru útpæld. Það var frábært að sjá hve margir vildu vera með í nefndinni, bæði nemendur í VMA og MA og einnig úr öðrum skólum í kring, sem lögðu mikla vinnu í að gera salinn glæsilegan og þau eiga mikið hrós skilið fyrir að gera árshátíðina jafn glæsilega og hún varð,“ segir Sólveig.

Stjórnin gengur stolt frá borði

„Ballið gekk ótrúlega vel og fjöldinn hefur verið um 350. Mögulega hefðum við getað byrjað dagskrána aðeins seinna til að koma í veg fyrir pásuna sem myndaðist milli borðhalds og ballsins, því sumir fóru heim og komu aftur síðar. Allir nemendur voru látnir blása og aðeins örfáir komust ekki inn á ballið vegna mælinga. Heilt yfir fór ballið mjög vel fram og ég og stjórnin förum stolt frá borði eftir vel heppnaða árshátíð,“ bætir Sólveig við.

Hún segist virkilega ánægð með hvernig til tókst og þá sérstaklega metnaðinn, dugnaðinn og drifkraftinn sem nemendafélagið sýndi. „Ég er virkilega ánægð, það gleður líka að sjá hve margir mættu, 120 fleiri nemendur mættu í ár en í fyrra. Það verður spennandi að sjá hvort við toppum það að ári,“ segir Sólveig að lokum. 

Veislumaturinn, áhöld, stólar og borð komu frá Veisluþjónustu Bautans og HS kerfi sá um alla uppsetningu á ljósa-, hljóð-, og tækjabúnaði.