Vikan fyrir páskafrí var sérlega fjölbreytt og skemmtileg í Glerárskóla. Um var að ræða árshátíðarviku Glerárskólans sem þótti afar vel heppnuð. Hún var metnaðarfull og það lætur nærri að hver einasti nemandi skólans hafi lagt hönd á plóg á einn eða annan hátt.
Það er ansi mikil vinna sem krakkarnir leggja á sig við að umbreyta skólanum í glæsilega sýningarhöll sem að þessu sinni var skreytt í anda þekktra skemmtistaða spilaborgarinnar Las Vegas.
Mikil hugmyndaauðgi var í atriðunum sem bekkirnir æfðu, útfærðu og sýndu á þremur sýningum fyrir nánast fullu húsi og oft voru leikverkin frumsamin og söngtextar líka. Að venju var 9. bekkur með stærsta og veglegasta sýningaratriðið, leikritið um Benedikt búálf, þar sem leikur söngur og dans þóttu með afbrigðum góð.
Öll umsjón árshátíðarinnar var í hönum nemenda, þar með talin tæknivinna, hljóð og ljósahönnun, skreytingar, auglýsingar og tónlistarflutningur á árshátíðarböllunum.
Nemendur í 10. bekk snæddu glæsilegan gala kvöldverð áður en þeir slettu úr klaufunum á árshátíðarballinu.
Í árshátíðarvikunni voru afhentar viðurkenningar fyrir eftirtektarverðan árangur nemenda í íþróttum, myndlist, ljóðagerð og lestri, allt samkvæmt kjörorði skólans sem er hugur, hönd og heilbrigði.
Nemendur Glerárskóla fara ánægðir í páskafrí, sáttir með vel heppnaða og afar þroskandi árshátíðarvinnu.