Fisk Kompaníið 10 ára í ár – „Allur fiskur hentar á grillið“Mynd: Glerartorg.is

Fisk Kompaníið 10 ára í ár – „Allur fiskur hentar á grillið“

Fisk Kompaníið á Akureyri er 10 ára í ár. Þar er að finna fjölbreytt úrval af kjöt- og fiskmeti. Verslunin opnaði nýverið nýtt útibú við hliðina á Nettó, Glerártorgi. Fisk kompaníið rekur nú verslanir bæði á Glerártorgi og við Kjarnagötu.

Ólöf Ásta Salmannsdóttir, annar eigandi Fisk Kompanísins á Akureyri, segir að fiskur henti ekki síður á grillið en kjöt og að fiskur sé bæði fljótlegt og þægilegt val í grillveislur sumarsins.

„Allur fiskur hentar á grillið en það fer eftir þéttleikanum hvort hann þurfi að fara í grillbakka eða ekki. Ég mæli t.d. með því að silungur og lax fari beint á grillið og grillist á meðalhita í gegnum roðið án þess að stykkjunum sé snúið við,“ segir Ólöf Ásta.

Þá mælir Ólöf líka með grillspjótum, sérstaklega fyrir tegundir sem eru þéttar í sér. Slíkan fisk má auðveldlega skera niður í bita og þræða upp á spjót. „Við seljum sjálf okkar eigin grillspjót með hlýra, steinbíti og grænmeti. Þessi spjót hafa verið gríðarlega vinsæl, bæði hjá heimamönnum og ferðafólki í útilegu,“ segir Ólöf. Hún bætir við að rækjugrillspjót með rauðpipar kryddlegi séu ekki síður vinsæll valkostur á grillið. „Það er auðvitað ákveðin stemming fólgin í því að grilla en fólk er líka að átta sig á því hversu fljótlegt og þægilegt það er að skella einhverju á grillið á sumrin, hvort sem það er fiskur eða kjöt. Eldamennskan tekur enga stund ef fólk er með grænmeti á grillbakka og kalda sósu með.“

Sellírótin trufluð á grillið

Fyrir þá sem eru vanir því að grilla steikur mælir Ólöf með því að þeir prófi lúðu á grillið, þ.e.a.s þegar hún er fáanleg, en bann við beinum lúðuveiðum hefur verið í gildi síðan 2012. Veiðist lúðan hins vegar óvart fer hún á markað. „Lúðan er svo þétt í sér, hún heldur sér vel og trosnar ekki þegar hún er grilluð. Hún er eiginlega svona „kjötfiskur“ því hún gefur manni svipaða tilfinningu og að borða kjöt,“ segir Ólöf og heldur áfram; „Við hjá Fisk Kompaníinu erum alltaf að prófa okkur áfram með nýja kryddlegi og hráefni sem gefa mismunandi bragðupplifanir. Við erum t.d. komin með nýjan grænmetisgrillbakka í sölu sem inniheldur grasker, sætar kartöflur og sellerí. Sellerírótin er alveg trufluð á grillið og gefur fiskinum auka bragðupplifun sem ég mæli eindregið með að fólk prófi.“

Engar magnpakkningar

Ólöf segir að auðvitað komi kjötið alltaf sterkt inn í grill vertíðina og bendir hún á að Fisk Kompaníið sé með mjög passlega kjötbita á grillið. „Þar sem við erum ekki með neinar magnpakkningar kaupir fólk bara nákvæmlega það magn sem það vantar, hvort sem það er í kjöti eða fiski. Það er auðvitað mjög hentugt, t.d. ef fólk er að undirbúa matarboð. Kannski er bara einn í hópnum í kjöti en restin í fiski og þá er bara hægt að kaupa kjötbita fyrir hann. Án magnpakkninga er minni hætta á því að eitthvað fari til spillis,“ segir Ólöf.

Meira á Glerartorg.is

Sambíó

UMMÆLI